Magnús Júlíusson, meistaranemi í verkfræði, var kjörinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna til tveggja ára á 42. sambandsþingi SUS sem lýkur í Borgarnesi í dag. Magnús hlaut 58 atkvæði af 62 greiddum atkvæðum eða 94%. Davíð Þorláksson, fráfarandi formaður, gaf ekki kost á sér til endurkjörs.
Magnús er fæddur og uppalinn í Reykjavík. Hann útskrifaðist sem stúdent af stærðfræðibraut Verslunarskóla Íslands og með B.Sc.-gráðu í hátækniverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík vorið 2011. Hann er nú að ljúka meistaranámi í sjálfbærum orkuvísindum innan vélaverkfræðideildar Konunglega Tækniháskólans í Stokkhólmi (KTH), samkvæmt fréttatilkynningu.
Magnús hefur sinnt ýmsum félagsstörfum á síðustu árum. Hann var formaður Pragma, félags verkfræðinema við HR, 2009 – 2010, formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík 2010-2011, framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra námsmanna (BÍSN) 2010-2011 og sat í háskólaráði Háskólans í Reykjavík 2010-2011. Hann sat í stjórn SUS 2009-2011, varaformaður Heimdallar 2010-2011 og hefur verið framkvæmdastjóri SUS frá því 2012.