Rafrænir miðlar, eins og til dæmis facebook, geta dregið úr hæfni okkar til nándar. Þetta segir Guðbrandur Árni Ísberg sálfræðingur og höfundur bókarinnar „Í nándinni – Innlifun og umhyggja“, en þar fjallar hann um það sem hann segir vera kjölfestu hamingjunnar: nærandi og örugg tengsl við annað fólk.
„Síðustu áratugina hafa rannsóknir leitt í ljós að aðaluppsretta hamingjunnar eru örugg og nærandi tengsl við annað fólk,“ segir Guðbrandur Árni. „Til að ná slíkum tengslum þurfum við hins vegar að geta upplifað nánd með öðrum, en nándin er það ástand þegar við upplifum öryggiskennd, finnst við geta verið við sjálf og sagt það sem okkur býr í brjósti.
Í nándinni gerast ýmsar efnabreytingar í heilanum og líkamanum. Framleiðsla á streituhormónum minnkar á sama tíma og framleiðsla á efnum eins og oxítósíni, sem stundum er kallað tengslahormónið, eykst. Meðan þessi efnagrautur er í gerjun inni í okkur finnum við hvernig kvíði og aðrar óþægilegar tilfinningar minnka og vellíðan og gleði koma í þeirra stað. Í þessu ástandi líður okkur vel, við finnum til löngunar til að leika okkur og gera skemmtilega hluti með öðrum. Það er því engin furða að nándin er aðaluppspretta hamingjunnar.“
Er eitthvað í nútímasamfélagi sem truflar nándina meira en annað?
„Já, hraði og óhóflegar kröfur trufla nútímamanninn mjög mikið því þær gera okkur stressuð en streita minnkar hæfni okkar til að upplifa nánd. Sömuleiðis geta rafrænir miðlar, eins og til dæmis facebook, dregið úr hæfni okkar til nándar. Við mennirnir erum afurð mjög langrar þróunarsögu og heili okkar er forritaður til að fá upplýsingar um annað fólk þegar við stöndum frammi fyrir því augliti til auglitis. Þá horfumst við í augu, sjáum líkamstjáningu og hlustum á raddblæ þess sem við ræðum við. Rafrænir miðlar gera okkur auðveldara að fá upplýsingar frá fólki en við erum ekki í raunverulegri nánd við það því nærveruna skortir.
Ég man eftir sjónvarpsþætti þar sem talað var við rúmlega tvítugan pilt sem átti 500 vini á facebook en aðalumkvörtunarefni hans var: Ég er einmana. Það er umhugsunarvert að eiga alla þessa svokölluðu vini en vera samt einmana. Það er ekki hægt að skapa nánd í gegnum facebook þar sem við sjáum bara stafi. Og af því það skapast ekki nánd þá stendur samkenndin höllum fæti og því er auðvelt, ef maður verður ósammála einhverjum, að ausa út úr sér svívirðingum sem maður myndi aldrei við hann segja augliti til auglitis.“