Ólafur Eggertsson, kornræktarbóndi á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum, segir að erfið tíð seinki því að hægt verði að klára að þreskja korn í ár. Hann er þó bjartsýnn á að uppskeran skili sér í hús og segir að kornið sé búið að ná fullum þroska.
„Það komu tveir dagar um daginn þar sem ég tók upp fimm hektara af korni. Það þarf að vera þurrkur til þess að hægt sé að ná þessu.“ segir Ólafur, en kornrækt er stunduð á Þorvaldseyri á 45 hekturum.
Undanfarin ár hefur verið sáð í yfir 4.000 hektara á landinu öllu. „Ég reikna með því að uppskeran verði eitthvað minni í ár vegna lélegs tíðarfars,“ segir Ólafur og bendir á þá kulda sem voru í vor og vætutíð að undanförnu.
Óttast ekki frost
Hann segist að ekki þurfi að óttast næturfrost héðan af. „Kornið er nægjanlega þroskað og því þurfum við ekki að hafa áhyggjur af því. Korn hér á Suðurlandi er seinna í þroska en það var í fyrra en ég geri ráð fyrir því að byrja að þreskja um miðjan mánuðinn ef veður leyfir,“ segir Ólafur.
Mest af korni sem ræktað er hér á landi fer í skepnufóður. „Ef það gerir góða uppskeru og menn eru með meira en þeir þurfa þá er það selt í fóðurstöðvar. Sú var raunin í fyrra en ég geri ekki ráð fyrir því í ár,“ segir Ólafur.
Ótrúlegur árangur
Kornrækt hefur verið stunduð á Þorvaldseyri frá árinu 1960. „Korn hefur þroskast hér á hverju einasta ári. Það hefur aldrei orðið algjör uppskerubrestur. Auðvitað er uppskeran mismunandi en síðustu 15-20 ára hefur uppskeran verið stöðug. Í ár hefur verið kalt og votviðrasamt en samt er kornið orði fullþroskað og það er árangur út af fyrir sig í svona tíð. Það er mikil seigla í kornbændum og ótrúlega góður árangur sem náðst hefur um allt landið,“ segir Ólafur.