„Steinunn Valdís kemur hér fram með mjög alvarlegar ásakanir sem enginn fótur er fyrir,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, en Steinunn sagði fyrr í kvöld að Birgitta hefði hvatt fólk til að fara að heimili hennar vorið 2010 og krefjast afsagnar.
Birgitta svarar Steinunni á samfélagsvefnum Facebook. „[É]g hef aldrei hvatt fólk til að fara heim til fólks til að mótmæla, né tekið þátt í slíkum mótmælum. Ég hvatti hana ásamt fleirum sem nefndir eru sérstaklega í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis í tengslum við mjög háa styrki frá bönkunum í prófkjörum aftur á móti til að segja af sér og myndi gera það aftur,“ segir Birgitta.
Eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld sagði Steinunn Valdís á sama vettvangi, að hafi hvatt fólk til að fara að heimili hennar vorið 2010 og krefjast afsagnar. Hún segist hafa spurt þingflokk Hreyfingarinnar út í málið og fengið svarið: „Segðu bara af þér.“
Steinunn Valdís nafngreinir raunar fleiri sem hún sagði að baki aðför á heimili sitt. „Forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson og bræður hans Hlaupagarpar voru fyrir framan gluggana hjá mér í þrjár vikur. Þar var einnig Björn Þorri Viktorsson lögmaður kvöld eftir kvöld vel klæddur í kraftgalla með marga af sínum skjólstæðingum. Til viðbótar voru margir skjólstæðingar Útvarps Sögu o.fl.,“ segir Steinunn Valdís.