Rannsaka meint ólögmætt samráð

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Heiðar

Samkeppniseftirlitið hefur í dag framkvæmt húsleit hjá Eimskipafélagi Íslands hf., Samskipum hf. og tilteknum dótturfélögum þessara fyrirtækja.

Aðgerðirnar eru liður í rannsókn sem ætlað er að varpa ljósi á hvort vísbendingar um ólögmætt samráð fyrirtækjanna og hugsanlega misnotkun á markaðsráðandi stöðu eigi við rök að styðjast, að því er fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Til húsleitanna var aflað úrskurða frá héraðsdómi Reykjavíkur.

Á þessu stigi gefur Samkeppniseftirlitið ekki frekari upplýsingar um rannsóknina.

Eimskip segir að Samkeppniseftirlitinu hafi verið veitt heimild til húsleitar á starfstöðvum Eimskipafélags Íslands hf. og hjá dótturfélögunum Eimskip Ísland ehf. og TVG Zimsen ehf. Húsleitin hafi verið gerð vegna rannsóknar á ætluðum brotum á 10. og 11. gr. samkeppnislaga.

Afla gagna í samráði við Samkeppniseftirlitið

Fram kemur í tilkynningu frá Samskip, að starfsmenn Samkeppniseftirlitsins hafi mætt í morgun í höfuðstöðvar Samskipa í Reykjavík og lagt fram heimild til húsleitar.

„Starfsfólk Samskipa vinnur nú að því að afla umbeðinna gagna í fullu samráði við starfsmenn eftirlitsins.

Ekki liggur fyrir hversu langan tíma aðgerðin mun taka, en stjórnendur og starfsfólk Samskipa leggja áherslu á gott samstarf við Samkeppniseftirlitið,“ segir í tilkynningunni.

Húsleit hjá Eimskip og Samskipum

Frá athafnasvæði Eimskipa.
Frá athafnasvæði Eimskipa. mbl.is/Rósa Braga
Samskip.
Samskip. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert