Ungir karlmenn upplifa vonleysi

„Það er alltaf ákveðinn hópur sem lendir utangarðs og þekkir ekki leiðina að aðstoð,“ segir Salbjörg Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Landlækni. Í dag er alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna og verða haldnar kyrrðarstundir í Dómkirkjunni í Reykjavík og í Glerárkirkju á Akureyri kl. 20:00 í kvöld til að heiðra minningu þeirra sem fallið hafa fyrir eigin hendi.

Ákveðinn hópur glímir við tilvistarkreppu

Hér á landi svipta að jafnaði tveir til þrír einstaklingar sig lífi í hverjum mánuði. Karlar eru líklegri til að taka sitt eigið líf en á vefsvæði Landlæknis segir að það hafi lengið valdið áhyggjum hve sjálfsvíg karla undir 25 ára aldri séu mörg. Þetta gildir ekki aðeins um Ísland, heldur virðist þetta vera ríkjandi víða um heim.

„Kannski er þetta vegna þess að það eru örar breytingar í samfélaginu, jafnvel breytingar á samfélagslegri stöðu karlmanna, sem kunna að valda einhverju þar um,“ segir Salbjörg. „Það er ákveðinn hópur sem glímir við kvíða eða tilvistarkreppu, það eru ekki aðeins fólk sem haldið er geðsjúkdómum sem tekur sitt eigið líf.“

Salbjörg segir að kennarar og þurfi að vera vakandi fyrir því sem gerist hjá ungu fólki áður en það flosnar upp úr námi. „Ef þú dettur út úr skóla, þá kemur upp ákveðið vonleysi og einstaklingar hafa til að mynda áhyggjur af því hvernig byggja eigi upp fjölskyldu,“ segir hún. Þá virðist ungir karlmenn ekki alltaf vita hvernig hægt sé að leita sér aðstoðar vegna vanlíðanar.

„Samfélagið í dag leggur mikla áherslu á að allir fari í háskóla,“ segir Salbjörg. Hún segir að efla þurfi iðnmenntun og leggja áherslu á að það sé raunhæfur og góður kostur þegar kemur að námsvali. „Sú hugsun virðist vera ríkjandi í dag að ef einstaklingar geti ekki farið í háskóla, muni hann ekki eiga sér líf.“

Að sögn Salbjargar hafa forvarnir beinst að því að ná í þau sem vinna með börnunum og ungmennunum og hvetja þau til að vera vakandi. Þá sé einnig mikilvægt að efla samskipti á milli ungmenna og foreldra.

Sorg þeirra sem eftir sitja

Í kvöld verður lögð áhersla á eftirlifendur og tilfinningar þeirra, þá sem sitja eftir og syrgja þann látna sem hefur tekið eigið líf. „Á bak við hvert sjálfsvíg eru aðstandendur sem þjást,“ segir Salbjörg. „Þessi sorg er öðruvísi og kemur óvænt, maður trúir því ekki að fólk ætli sér að taka sitt eigið líf.“

Salbjörg að mikilvægt að hafa í huga að foreldrar, skyldmenni, starfsmenn heilsugæslu, námsráðgjafar, skólahjúkrunarfræðingar og fleiri geti aðstoðað, sé vanlíðan til staðar. Þá er hjálparsími Rauða krossins (1717) einnig opinn allan sólarhringinn þar sem hægt er að hringja inn og ræða málin.

Vefur Landlæknisembættisins

Sjálfsvíg.is


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert