Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, varaði við frekari niðurskurði á samneyslu landsmanna í umræðum á Alþingi í dag um munnlega skýrslu forsætisráðherra um störf ríkisstjórnarinnar og verkefnin framundan. Sagði hún skorta á að spurt væri þeirra lykilspurninga hvernig rétta leiðin fyrir Ísland áfram væri valin. Um það væri ekki samstaða á meðal þingmanna.
„Ég tel til að mynda að aukinn niðurskurður á samneyslunni muni hafa óafturkræf áhrif á samfélagið okkar. Ég tel að aukinn niðurskurður í heilbrigðiskerfinu geti birst í neikvæðum áhrifum á heilbrigði landsmanna og rökstyð það með ýmsum dæmum sem fræðimenn hafa verið að rannsaka núna í efnahagskreppunni. Þær sýna svo ekki verður um villst að niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarkerfi getur skapað mun meiri kostnað síðar. Ég tel líka að aukinn niðurskurður í menntun og rannsóknum sé rangur á þessum tímapunkti því fjárfesting í þessum geirum skilar sér beinlínis í aukinni velsæld fyrir landsmenn alla – ef marka má þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á því sviði,“ sagði hún.
Þá sagðist Katrín telja að leiðir til þess að skera niður í gegnum breytingar á rekstrarformum væru varhugaverðar, og vísaði þar í nýleg ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra. Það væri að hennar mati meðal annars „ekki siðferðilega rétt eða skynsamlegt að einkaaðilar geti hagnast á þeim grunnstoðum sem samfélög hafa byggt upp saman. Sá hagnaður á að vera samfélagsins alls.“