„Ríkisstjórnin verður að fara að svara skýrt hvað hún ætlar að gera,“ sagði Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar, á Alþingi í dag í umræðum um munnlega skýrslu forsætisráðherra um störf ríkisstjórnarinnar. Sagði hann tíma ríkisstjórnarinnar vera að renna út og spurði um úrræðin til handa skuldugum heimilum.
Guðmundur sagði grunsemdir sínar um víðtækt úrræðaleysi ríkisstjórnarinnar hafa vaxið til muna eftir að hafa hlýtt á ræðu forsætisráðherra. Kallaði hann eftir skýrum svörum frá ríkisstjórninni vegna ástandsins á Landspítalanum, hvernig standa ætti að því að afnema gjaldeyrishöftin og hvernig fara ætti með aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið sem og fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar sem Guðmundur átti þátt í að móta.
„Það slær mig dálítið að það er eins og stefna ríkisstjórnarinnar á fyrstu mánuðunum geti borið yfirskriftina Afsakið hlé. Og ég vona heitt og innilega að útsendingin fari bráðum að hefjast aftur,“ sagði hann ennfremur.