Hafa verið að glöggva sig á stöðunni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson Forsætisráðherra og fjármála- og …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson Forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra boða til blaðamannafunda. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á Alþingi í dag að hann og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefðu að undanförnu verið að glöggva sig á stöðu gjaldeyrishafta út frá fyrirliggjandi upplýsingum. Hann sagði til standa að halda áfram þverpólitísku samráði um málið.

Gjaldeyrishöftin voru til umræðu í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, hóf umræðuna og spurði Bjarna hvort til stæði að halda áfram þverpólitísku samráði sem var við lýði á síðasta kjörtímabili þegar kom að vinnu að áætlun um afnám gjaldeyrishafta.

Bjarni sagði samráðið á síðasta kjörtímabili hafa skipt gríðarlegu máli og það væri einn lykilþáttur þess að áfram yrði unnið í góðri sátt að afnámi haftanna. Það gæti hins vegar ekki verið örugg trygging um að menn væru sammála um þær leiðir sem valda yrðu til að takast á við vandann. Skiptar skoðanir eru á því enda vandinn margþættur. Hann hefði skilning á því að Árni Páll teldi of langt hafa liðið á milli funda í samráðshópnum en sá tími yrði hratt unninn upp.

Árni Páll sagði það skipta máli að allir reru í sömu átt í þessu máli enda þjóðin í helgreipum gjaldeyrishafta og málið því mikilvægt hagsmunamál hennar. 

Bjarni sagði þá að áætlun um afnám hafta yrði ekki unnin í samráðshópnum. Hann væri fyrst og fremst vettvangur til að skiptast á upplýsingum, opinbera áætlunina og fá á hana gagnrýni eftir því sem ástæða væri til. Þar skyldi trúnaður ríkja og það sem þar kæmi fram færi ekki í opinbera umræðu.

Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert