Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra, hefur ákveðið að fela lögmanni sínum að undirbúa málshöfðun á hendur Háskóla Íslands vegna ákvörðunarinnar um að afturkalla ráðningu hans til kennslu.
Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag segir Jón Baldvin skýringar forráðamanna Háskóla Íslands ekki standast skoðun. Þeir leyfi sér að ganga langt í að hagræða staðreyndum.
„Skýringar forráðamanna HÍ á fyrirvaralausri ákvörðun þeirra um að afturkalla ráðningu mína til kennslu við stjórnmálafræðideild skólans standast ekki skoðun. Þeir leyfa sér að ganga langt í að hagræða staðreyndum í von um að geta breitt yfir það ófremdarástand sem ríkir innan Félagsvísindasviðs. Þessar skýringar bera vott um skort á sannleiksást, vilja til yfirhylmingar (e. cover-up) og ódrengskap í garð þeirra sem verða að búa við afleiðingarnar af þeirra eigin klúðri.
Hverjar eru þessar skýringar? Látið er eins og þetta sé allt honum Baldri að kenna. Dr. Baldur Þórhallsson prófessor á að hafa beðið mig um að líta við í nokkra tíma á námskeiði á hans vegum. Þetta á að hafa verið einkamál Baldurs.
Baldur hafi síðan afturkallað ákvörðun sína. Þar með beri Félagsvísindasvið og stjórnmálafræðideild enga ábyrgð. Þetta er hins vegar, að mati rektors, tilefni til að setja reglur um gestakomur til háskólans.
Allt er þetta eftiráspuni manna sem virðast ekki þora að bera ábyrgð á orðum sínum og gjörðum. Staðreyndirnar eru allt aðrar. Dr. Baldur kom hvergi nærri þessu fyrirhugaða námskeiði, enda er hann í leyfi frá háskólanum sem gestaprófessor í Bandaríkjunum. Verkefnið sem mér var falið að vinna á vegum stjórnmálafræðideildar var að undirbúa námsáætlun, annast kennslu (fimmtán fyrirlestrar og fimm umræðutímar); einnig að annast námsmat (ritgerðir og próf) nemenda til B.A.- og M.A.-prófa, í samstarfi við tvo aðra starfsmenn deildarinnar. Þetta var mér falið að gera með bréfi þann 9. júlí. Í bréfinu segir m.a.: "Þetta væri deildinni mikils virði. Það er löngu kominn tími til þess að þú komir aftur hingað". Þetta sögðu þeir þá. Nú er allt í einu komið annað hljóð í strokkinn. Hvað veldur?,“ spyr Jón Baldvin í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.