„Lokaorrustan um Reykjavíkurflugvöll er hafin,“ sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og bætti við að hún mundi ná hámarki í næstu borgarstjórnarkosningum. Innanríkisráðherra sagði viðræður við borgina ganga vel og hægt væri að ná sátt og góðri niðurstöðu í málið.
Málefni Reykjavíkurflugvallar var tekið til sérstakrar umræðu á Alþingi í dag. Kristján L. Möller hóf umræðuna og benti á að málið hefði verið á borði að minnsta kosti fimm síðustu samgönguráðherra, þar með talið sínu. Hann gangrýndi borgaryfirvöld harðlega og sagði þau ítrekað hafa tafið mál og svikið samninga sem gerðir hefðu verið á milli borgar og ríkis. Hann nefndi þar samgöngumiðstöð sem dæmi og stækkun húsnæðis Isavia.
Þá sagði hann að ef borgaryfirvöld ætluðu að halda því til streitu að Reykjavíkurflugvöllur færi úr Vatnsmýri yrði hann ekki lengur Reykjavíkur. Flugið færðist til Keflavíkur og fyrir vikið yrði nýr Landspítali ekki reistur í höfuðborginni heldur ætti að reisa hann á Vífilsstöðum í Garðabæ. Með því færu sex þúsund störf úr höfuðborginni.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra tók upp hanskann fyrir borgaryfirvöld í umræðunni. Hún sagði mikilvægast að ná sátt um framtíðarskipulag innanlandsflugvallar og að hann ætti að vera í Reykjavík. Hvort það yrði í Vatnsmýrinni eða annars staðar væri hins vegar mál sem leysa yrði í góðri sátt borgar, landsbyggðar og ríkis. Virða yrði skipulagsvald Reykjavíkur.
Hún sagðist geta upplýst þingheim um að viðræður hefðu staðið yfir við borgaryfirvöld frá því í sumar um að völlurinn fengi að starfa áfram með fleiri en einni braut lengur en kemur fram í nýju aðalskipulagi Reykjavíkur. Hún mundi áfram beita sér fyrir því að ræða við Reykjavíkurborg um að leysa þessa stöðu en gæti ekki upplýst frekar um viðræðurnar. Þær stæðu til 20. september en þá rynni frestur til að skila athugasemdum við aðalskipulagið - sem er í auglýsingu - út. Markmið ríkisins væri þó að völlurinn fengi að vera fullvirkur í lengri tíma en gert væri ráð fyrir.
Fleiri tóku þátt í umræðunni. Þannig nefndi Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, að brýnt væri að tryggja hagsmuni sjúkraflugs og ekkert væri því til fyrirstöðu að það væri gert þó að flugvöllurinn yrði færður úr Vatnsmýrinni. Hægt væri að skipuleggja flugvallarsvæðið þannig að sjúkraflugi yrði tryggð góð flugbraut í Vatnsmýri. Margar hliðar væru á málinu sem einkenndist af gagnkvæmum upphrópunum.
Óttarr Proppé tók undir með Árna Þór, sagði alla tala um sátt í málinu en teldu sáttina eingöngu geta falist í því að fallist væri á þeirra tillögu. Það leiddi ekki til sáttar þótt það gæti leitt til lausnar.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, lagði til að annaðhvort yrði komið á þjóðfundi eða þjóðaratkvæðagreiðslu. Þannig væri hægt að leysa málið.
Þá lagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, til að Alþingi tæki sér skipulagsvaldið í Vatnsmýrinni enda væri eðlilegt að það væri hjá kjörnum fulltrúum allrar þjóðarinnar en ekki kjörnum fulltrúum borgarinnar. Hann hyggst leggja fram frumvarp sama efnis.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ágreininginn hafa staðið of lengi og kominn væri tími til að leysa hann. Gott væri að horfa á staðreyndir málsins. Ekki stæði til að byggja nýjan flugvöll á næstu árum og ekki stæði til að færa innanlandsflug til Keflavíkur. Út frá þessum staðreyndum yrðu borgarfulltrúar að vinna. Reykjavík hefði mörg önnur tækifæri til að þétta byggð.
Hann tók einnig fram að nú bæri að hefja uppbyggingu í Vatnsmýrinni út frá því að þar yrði flugvöllurinn áfram. „Það er ekkert öðruvísi,“ sagði Jón.