„Menn stilli kröfum í hóf“

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, Páll …
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ, Páll Halldórsson, varaformaðu BHM og Benedikt Árnason, efnahagsráðunautur forsætisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Menn verða að stilla kröfum í hóf og í samræmi við þá stöðu sem uppi er hverju sinni,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra að loknum fundi með aðilum vinnumarkaðarins sem haldinn var í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í dag. Á fundinum var rætt um gerð kjarasamninga.

Á fundinn mættu fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, ASÍ, BSRB, Bandalags háskólamanna, Kennarasambandsins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Bændasamtaka Íslands.

Bjarni sagði að ríkisstjórnin hefði skipað sérstaka ráðherranefnd sem hefur verið falið að fylgjast með því sem er að gerast í viðræðum aðila á vinnumarkaði. „Við viljum tryggja að samráðsferlið geti verið skilvirkt. Það má kalla þetta fyrsta fund þar sem við gerðum grein fyrir hvernig við viljum standa að þessu. Við höfum þegar stutt við viðleitni aðila vinnumarkaðarins til að bæta faglega vinnu við gerð kjarasamninga. Þetta var góður fyrsti fundur þar sem menn voru að lýsa væntingum og því sem framundan er.“

Bjarni sagði að aðilar vinnumarkaðarins myndu núna halda áfram vinnu við gerð kjarasamninga. „En við munum koma fram með skýr skilaboð um hvernig við sjáum fyrir okkur að ríkið geti beitt sér í því augnamiði að styrkja bæði stöðu atvinnulífsins og launþeganna landinu. Ráðherranefndin og embættismenn sem starfa með henni munu taka við skilaboðum meðan á kjaraviðræðunum stendur og vinna með innan stjórnkerfisins.“

„Menn verða að stilla kröfum í hóf og í samræmi við þá stöðu sem uppi er hverju sinni. Sagan sýnir að þegar menn gera það ekki þá endum við í verðbólguskeiði og kjararýrnun sem aftur leiðir til óróa á vinnumarkaði. Á þessum tímapunkti sá ég ástæðu til þess að rifja þetta upp og tala fyrir því að menn einbeittu sér að því, m.a. með bættum vinnubrögðum við kjarasamningagerð, að tryggja að þær kjarabætur sem verið væri að semja um fyrir launþega í landinu héldust í hendur við stöðuna í hagkerfinu og getu atvinnurekenda til að koma til móts við væntingar sem þar eru uppi. Við munum leggja okkar af mörkum. Sumt verður ekki við ráðið eins og eftirspurn eftir framleiðslu okkar á erlendum mörkuðum, en ef að ríkisstjórnin leggur sitt af mörkum með því að ná hallalausum fjárlögum sem allra fyrst, með því að beita aðgerðum sínum til samræmis við það sem helst er verið að kalla eftir frá fólkinu í landinu og ef aðila vinnumarkaðarins fara ekki fram úr sér í kjarasamningagerð þá tel ég að við séum í kjörstöðu í dag til að hefja nýtt skeið þar sem meiri stöðugleiki verður viðvarandi og raunhæfur vöxtur sömuleiðis, þ.e.a.s. góður vöxtur undir raunhæfar kjarabætur.“

Bjarni sagði að það væri ríkur vilji hjá stjórnvöldum til að hafa samráð um þróun húsnæðismála. Þetta hefði komið fram á fundinum. Hann sagðist vera tilbúinn til að vinna áfram með hugmyndir sem t.d. ASÍ hefði kynnt. „Ég vil láta reyna á möguleikann til þess að þróum lánakerfi þar sem óverðtryggð lán eru meginlínan. Til að það geti orðið þurfum við að skapa umhverfi fyrir óverðtryggða langtímavexti.“

Vantar betri upplýsingar um stefnu stjórnvalda

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ sagði að á fundinum hefði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra gert grein fyrir því hvernig hann sæi fyrir sér að ríkisstjórnin kæmi að umfjöllun um gerð kjarasamninga. „Við þurfum að fá betri upplýsingar um stefnu stjórnvalda. Þegar fjárlagafrumvarpið kemur fram þá birtist stefna ríkisstjórnarinnar í mörgum málum, bæði efnahags- og félagsmálum. Væntingar okkar um gengi og verðlag á næstu misserum skipta líka miklu máli. Það er óvissa í kringum þetta. Það skiptir líka máli hvernig peningastefnan verður skilgreind.“

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði ánægjulegt að sjá að stjórnvöld væru að efna til samráðs, sem SA hefði kallað skýrt eftir. „Það er mikilvægt að fá skýra sýn á efnahagsstefnu stjórnvalda. Hún var kannski ekki dregin upp á þessum fundi, enda stuttur fundur, en það er fagnaðarefni að vinnan er a.m.k. farin af stað.

Við erum að leggja áherslu á að hér verði verðmætasköpun til framtíðar. Við höfum lagt áherslu á að breyta vinnubrögðum við gerð kjarasamninga með það að markmiði að ná efnahagslegum stöðugleika, lægri verðbólgu, lækkandi vöxtum og aukinni fjárfestingu sem er grundvöllur þess að við getum hafið lífskjarasókn að nýju. Það er mikilvægt að efnahagsstefna stjórnvalda styðji við okkar aðgerðir. Við erum þá að horfa til bæði skattkerfis, hvernig peningamálastefnan verður mótuð og efnahagsstefnan á breiðum línum,“ sagði Þorsteinn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra heilsar Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra heilsar Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert