Rætt um Evrópumálin á morgun

Alþingi.
Alþingi. Rósa Braga

Utanríkisráðherra flytur Alþingi munnlega skýrslu um Evrópumál klukkan ellefu í fyrramálið. Í kjölfarið taka við umræður um skýrslu ráðherrans. Reikna má með heitum umræðum en eins og kunnugt er gerði ríkisstjórnin hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið þegar hún tók við völdum.

Meðal annars sendi Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, Gunnari Braga Sveinssyni utanríkisráðherra nokkrar spurningar um Evrópumálin í síðasta mánuði og fékk við þeim svör. Meðal annars sagði Gunnar Bragði það skýrt að stefna ríkisstjórnarinnar væri að gera hlé á ferlinu og hefja það ekki aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sú stefna ríkisstjórnarinnar hafi verið kynnt ESB á fundi utanríkisráðherra og stækkunarstjóra ESB og utanríkisráðherra Litháens sem nú fer með formennsku í ESB. 

Þá sagði Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrsti varaforseti Alþingis, nýverið í fjölmiðlum að hann teldi það sameiginlegan skilning forsætisnefndar þingsins að ný þingsályktunartillaga þyrfti að koma til svo hægt væri að slíta viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. 

Gunnar Bragi svaraði því til að álitsgerð hefði verið gerð og í henni kæmi skýrt fram að nýr meirihluti væri ekki bundinn af ályktun fyrri meirihluta þar sem hún byggðist ekki á sérstakri heimild í lögum eða stjórnarskrá. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri því ekki bundin af þeirri ákvörðun sem tekin var 2009 um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Talsmaður stækkunarstjóra Evrópusambandsins hélt því fram í lok mánaðar að það væri staðföst sannfæring Evrópusambandsins að besti vettvangurinn fyrir samskipti Íslands og sambandsins væri umsóknarferlið og að innganga Íslands yrði báðum aðilum til góðs.

Evrópusambandið.
Evrópusambandið. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka