Villtur á jökli í afleitu veðri

Björgunarsveitir og þyrla á Svínafellsjökli.
Björgunarsveitir og þyrla á Svínafellsjökli.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar leita manns sem villtur er á Svínafellsjökli. Hann lagði af stað í gönguferð í morgun og hugðist ganga upp að Hrútfellstindum. Um klukkan sex í kvöld hringdi hann í systur sína í Póllandi og sagðist vera villtur.

Fyrstu björgunarsveitir voru kallaðar út um klukkan 18.30 og nú er búið að boða vant fjallafólk frá öllum sveitum frá Höfn til höfuðborgarsvæðisins enda jökullinn aðeins fær slíku fólki. Nokkrir starfsmenn frá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum sem staddir voru í Skaftafelli munu einnig aðstoða við leitina.

Gert er ráð fyrir að leita þurfi allt svæðið frá rótum jökulsins og upp að tindunum. Veður á svæðinu er afleitt, mikil þoka og rigning á köflum.

Ekki hefur náðst símasamband við manninn en hann hefur náð að senda tvö sms skilaboð til bakvaktar björgunarsveita. Í þeim lýsir hann nánar staðsetningu sinni, segist vera orðinn kaldur og að síminn sé að verða straumlaus.

Verið er að flytja búnað á svæðið sem miðað getur út staðsetningu símans og mun þyrla LHG líklegast fljúga með hann frá Reykjavík og austur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert