Arnaldur Indriðason hlaut í dag hin kunnu og virtu RBA Novela Negra-verðlaun á Spáni fyrir bók sína Skuggasund, en bókin kemur út samtímis á íslensku og spænsku í byrjun nóvember.
Verðlaunaféð er 124 þúsund evrur eða um rúmlega 20 milljónum íslenskra króna.
Tilkynnt var um verðlaunin á blaðamannafundi á Spáni í morgun. RBA Novela Negra-verðlaunin eru alþjóðleg glæpasagnaverðlaun sem veitt eru árlega fyrir óútgefna bók. Valið er úr tugum handrita frá ýmsum löndum sem send eru inn undir dulnefni. Arnaldur sendi handrit að bókinni inn í keppnina undir dulnefninu „Stephan“.
Forseti Katalóníu, Artur Mas, afhendir verðlaunin með viðhöfn í kvöld að viðstöddum borgarstjóra Barcelona, Xavier Trias, og fjölda annarra gesta. Fyrri handhafar verðlaunanna eru m.a. Michael Connelly, Patricia Cornwell, Philip Kerr, Andrea Camillieri, Harlan Coben o.fl.
Skuggasund er sautjánda bók Arnaldar Indriðasonar og er væntanleg samtímis á spænsku og íslensku síðar í haust. Arnaldur hefur árum saman notið gríðarlegrar hylli lesenda og gagnrýnenda, jafnt hér heima sem erlendis. Bækur hans hafa verið þýddar á tugi tungumála, selst í milljónum eintaka og aflað höfundinum verðlauna og virðingar víða um lönd. Meðal verðlauna sem Arnaldi hafa áður hlotnast má nefna norrænu Glerlyklana, sænsku Martin Beck-verðlaunin, breska Gullrýtinginn og frönsku verðlaunin Grand Prix des Lectrices de Elle og Le Prix du Coeur Noir.