Hraunvinir, samtök sem leggjast gegn lagningu Álftanesvegar um Gálgahraun, hafa blásið til mótmæla við hraunið á sunnudaginn. Framkvæmdir við veginn eru sagðar hefjast á næstunni.
Mótmælaganga samtakanna mun taka á aðra klukkustund og að gangan leggi af stað frá Prýðahverfi klukkan 14:00.
Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að ÍAV, verktakinn sem mun annast framkvæmdirnar, hafi þegar flutt vinnubúðir á staðinn og búi sig undir að hefja verkið. Sigurður R. Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá ÍAV, sagði að vinna við sjálfa veglagninguna hefjist á næstu dögum.
Í tilkynningu sem Hraunvinir sendur frá sér segir að „eins og kunnugt er þá hafnaði sýslumaðurinn í Reykjavík beiðni fernra umhverfisverndarsamtaka um lögbann á lagningu vegar í Gálgahrauni þar sem segir að samtökin eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Kæra vegna þessarar synjunar sýslumanns hefur þegar verið lögð fram við héraðsdóm. Ennfremur er nú rekið mál fyrir héraðsdómi á hendur vegamálastjóra til viðurkenningar á ólögmæti vegaframkvæmdanna.
Mótmælagangan á sunnudaginn er haldin í tilefni af Degi íslenskrar náttúru sem ber nú upp á mánudaginn 16. september og eru allir unnendur íslenskrar náttúru hvattir til þess leggja baráttunni gegn eyðileggingu Gálgahrauns lið.“