Viðmælandi mbl.is, sem ekki vildi koma fram undir nafni, segir að á samskiptavefnum facebook séu að minnsta kosti tveir lokaðir hópar þar sem ungir karlmenn deili nektarmyndum af stúlkum sem þeir fá sendar, meðal annars gegnum smáforritið Snapchat.
Einhverjar stúlknanna kunna að vera það ungar að varsla efnisins gæti talist varsla barnakláms. Umræðan kviknaði eftir að Tímaritið Monitor vakti athygli á málinu í blaði sínu í dag.
Hópana segir viðmælandinn, sem er kvenkyns, rekja rætur sínar í Vesturbæ Reykjavíkur og Garðabæinn, og að flestir í hópunum séu viðloðandi fótbolta.
„Ég heyrði um svona hópa í fyrra. Þá hitti ég vini mína úr Garðabænum og þá voru þeir eitthvað að tala um að hinn og þessi væri í þessum hópi í Garðabænum. Ég spurði besta vin minn „Hvað er þetta sem þeir eru að tala um“ og hann sagði að þetta væri einhver síða þar sem strákar væru að setja inn myndir, og ég var bara „Guð minn almáttugur,“ og spurði hann hvort hann væri á þessari síðu, en hann sagðist halda sig frá þessu.“
Hún segist vita af sambærilegri síðu í Vesturbæ Reykjavíkur. „Þetta eru aðallega fótboltastrákar sem eru í þessu og ég einmitt sá einhvern tíma þegar vinur minn var í tölvunni minni inni á svona síðu. Þetta er eitthvað svo ömurlegt. Strákarnir skrifa yfir myndirnar „þessi er '97 módel úr Hafnarfirðinum“ eða „tók þessa með mér heim af balli“ eða „tók þessa með mér heim úr bænum síðustu helgi“ og hinir kommenta „flottur,“ „nettur“ eða eitthvað þannig.“
„Ég velti fyrir mér hvort strákarnir spyrja stelpurnar „Hey, má ég ekki taka mynd af þér“ og hvort þær segi bara, já gjörðu svo vel.“
Hún segist hafa heyrt um það í grunnskóla, í tengslum við „MSN-menninguna“ fyrir einhverjum árum voru stelpur að senda „flass-myndir“, þar sem þær sýndu á sér brjóstin. „Svo hefur maður heyrt um pör þar sem annar er kannski að vinna úti á landi einhvern tíma, þá senda þau kannski nektar- eða nærfatamyndir af sér til hins. Ef sambandið endar svo illa, þá finnst fólki kannski allt í lagi að senda þetta til vina sinna.“
Hún segir að ef þú sendir svona mynd gegnum netið, þá sé viðtakandinn aldrei að fara að eyða henni. „Svo safnast þetta bara upp. Sumir eru kannski í mörgum svona hópum og dreifa þeim myndum sem þeir hafa á marga svona hópa, það ætti ekki að vera neitt mál.“
Heldurðu að þessar stelpur viti af þessu?
„Ég held ekki, það er ekki nógu mikil vitneskja um þetta. Ég var að tala um þetta við nokkrar stelpur fyrir svona ári síðan, þá voru þær mjög hissa, og kannski eru einhverjar þeirra á svona síðum. Ein vinkona mín talaði til dæmis um að hún hefði sent svona mynd af sér þegar hún var í 8. bekk í grunnskóla,“ en nemendur í 8. bekk eru í kringum 14 ára gamlir. „Kannski er sá sem hún sendi þessa mynd á svona síðu að skrolla í gegnum tölvuna sína og setur inn á svona síðu.“
„Það er svo auðvelt að senda mynd sem þú sendir einhverjum að senda áfram til 100 manns, sem geta svo vistað hana hjá sér. Þetta er lítið samfélag hérna, það er örugglega mjög líklegt að ef þú ert í 30 manna hópi að þú sjáir kannski mynd af litlu frænku þinni.“
Hún segir að vini sínum hafi verið bætt inn í svona hóp, sem hann sagði sig umsvifalaust úr. „Strákarnir sögðu við hann „ertu ekki að grínast maður, þetta er bara næs“. Það er enginn að fara að segja við þessa stráka „þetta er grafalvarlegt, ekki vera að þessu,“ það væru kannski frekar stepurnar sem segðu það við þessa stráka. Þetta er bara það sem er að gerast.“
Þú talar um tvo hópa, heldurðu að þeir séu fleiri?
„Jájájá, það held ég. Það hlýtur að vera,“ segir hún, og gerir því í skóna að þetta sé framhald á klefamenningu fótboltafélaga, og einskorðist ólíklega við tiltekna borgarhluta. „Af hverju ætti þetta ekki að vera í öðrum fótboltahópum?“
Er þetta bundið við fótboltastráka?
„Maður hefur heyrt um þessa klefamenningu og það er alltaf verið að slúðra í klefanum, strákar sem eru mjög mikið saman. Þetta væri ekki eitthvað sem myndi spretta upp í einhverjum bekk í framhaldsskóla, eða það held ég ekki. Íþróttastrákar kannski, sem hittast á hverjum degi inni í svona afmörkuðu rými.“
Heldurðu að stelpur haldi þessu áfram eftir svona umræðu?
„Ég hugsa að stelpur hugsi sig um þegar þetta verður svona opnara í umræðunni áður en þær senda mynd. Þegar allir voru að byrja á MSN á sínum tíma vissi fólk örugglega ekki einu sinni að það væri hægt að vista þær myndir. Það koma fram svo margar tækninýjungar og meiri vitundarvakning í þeim bransa. Eins og með Snapchat þá heyrði ég að strákar væru að senda myndir af sér og senda myndir til baka. Ég hef ekki orðið vitni að því sjálf. Núna er samt komið app í iPhone sem gerir þér kleift að sjá allar myndir sem þú færð. Ef eitthvað fer í gegnum netið, þá er það alltaf vistað einhversstaðar. Þegar fólk veit af þessu fer það vonandi að passa sig.“
„Þetta eru líka oft miklu eldri srákar og stelpur alveg niður í kannski 15 ára gamlar. Þá er náttúrlega eitthvað smá að hjá eldri aðilanum.“