„Meginboðskapurinn í ræðu hæstvirts utanríkisráðherra var að hann hefði tekið ákvörðun - án þess að ræða það sérstaklega við Alþingi - um að slá af samningahópana og aðalsamninganefndina sem að tengjast umsóknarferli Íslands gagnvart aðild að Evrópusambandinu. Það er næsti bær við það að slíta umsókninni,“ sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag, í umræðum um Evrópumál.
Össur bætti við að það væri ekki stefna núverandi ríkisstjórnar. „Það er allt annað heldur en að hún gaf fólkinu lögmætar væntingar um.“
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hóf umræðum með því að gefa munnlega skýrslu um Evrópumál.
Össur sagði ennfremur, að hann geri sér grein fyrir hinum pólitíska veruleika málsins en „orð skulu standa. Forystumenn í stjórnmálum þeir verða að standa við það sem þeir lýsa yfir.“
Össur segir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar komi skýrt fram að það eigi að gera hlé á viðræðunum og að það eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðanna. „Þetta er stefna ríkisstjórnarinnar margítrekuð.“
Í upphafi ræðu sinnar, sagði Össur: „Ég held að hæstvirtur utanríkisráðherra hljóti að hafa slegið Íslandsmet í þessari fyrstu stefnuræðu sinni um utanríkismál, því honum tókst í einni ræðu, bæði að fara gegn eigin yfirlýsingu, storka fullveldi Alþingis og líka að fara gegn stefnu ríkisstjórnarinnar,“ sagði Össur.
Hann sakar Gunnar Braga um óhrein vinnubrögð. „Ég er þeirrar skoðunar að menn eiga að tala skýrt. Ræða þín á að vera já, já eða nei, nei,“ sagði hann.
„Hæstvirtur utanríkisráðherra segir eitt í Brussel og annað í Reykjavík,“ sagði Össur og vísaði til þess að Gunnar Bragi sagt við fulltrúa ESB að gert yrði hlé á viðræðunum og síðan myndi íslenska þjóðin fá að greiða atkvæði um framhald viðræðnanna.