Skorið verður niður í strætókerfinu

Leið 57 hjá Strætó til Akureyrar.
Leið 57 hjá Strætó til Akureyrar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Strætóferðir halda áfram án röskunar á Norður- og Norðausturlandi og ekki kemur til greiðsluþrots hjá Eyþingi vegna þeirra eins og útlit var fyrir. Hins vegar er unnið að langtímalausn og ljóst er að einhver niðurskurður verður í áætlunarferðakerfinu.

Bráðavandinn leystur og unnið að langtímalausn

„Það er komin lausn í málið, það verður leiðrétt ákveðin skekkja í reiknilíkani sem dugir til að leysa bráðavandann í dag og það er að fara í gang vinna með ráðuneyti og Vegagerð um að koma málinu á réttan kjöl til frambúðar,“ segir Pétur Þór Jónasson framkvæmdastjóri Eyþings, sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. 

Í gær náðist sátt milli Eyþings, sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, og innanríkisráðherra um 10 milljóna króna leiðréttingu frá ríkinu vegna skekkju sem kom í ljós. Í dag fundaði Eyþing svo með Vegagerðinni um framhaldið og fyrir liggur að ráðist verður í endurskoðun á bæði fjárframlögum og sjálfu kerfinu.

Kerfið skorið niður - afsláttakjör of rífleg

Pétur segir að nú sé komin reynsla á kerfið bæði á sumar- og vetrartíma sem hægt sé að vinna út frá, en tekjustreymið er mjög ójafnt yfir árið.

„Þetta hefur mælst mjög vel fyrir og heilt yfir er fólk mjög ánægt með þetta kerfi, sem er stór framför frá því sem áður var og mun öflugri þjónusta. Engu að síður þurfum við aðeins að bakka á einhverjum sviðum. Það verður einhver niðurskurður í kerfinu, það er alveg ljóst.“

Þannig muni niðurstaðan líklega vera samtvinning af aukinni fjárveitingu af hálfu stjórnvalda og niðurskurði í þjónustunni. „Við erum búin að liggja yfir endurskoðun á leiðakerfi og gjaldskrá, sem við lögðum fram en þeirri vinnu verður haldið áfram, bæði hvað varðar grunngjöldin og afsláttarkjörin. Það er svona almenn skoðun að afsláttagjöld séu allt of rífleg í þessu.“

Vilji til fjárveitingar í fjáraukalögum

Höskuldur Þórhallsson, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, sagði við upphaf þingfundar í morgun að staðan væri grafalvarleg en að það væri verkefni nefndarinnar að taka málið upp.

„Og reyna að halda úti þessari ágætu þjónustu, sem hefur mælst mjög vel fyrir, og sjá hvort það sé ekki hægt í samstarfi ríkis og sveitarfélaga að finna fjármagn í væntanlegum fjáraukalögum ef vilji stendur til þess. Ég er reiðubúinn, og veit að það er vilji hjá þingmönnum nefndarinnar til þess.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert