Utanríkisráðherra á þunnum ís

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG.
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður VG. mbl.is/Ómar

Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, segir að utanríkisráðherra hafi í veigamiklum atriðum vikið frá lögmætri samþykkt Alþingis í viðræðunum við Evrópusambandið með því að leysa upp samninganefnd og hópa sem tengjast aðildarviðræðum Íslands að ESB.

Árni Þór sagði að Alþingi hefði ákveðið hvernig samninganefndirnar og hóparnir hefðu verið skipaðir og hver aðkoma þingsins væri að vinnu þeirra.

„Nú hefur ráðherra upplýst að hann hafi ákveðið að leysa þessa samningahópa frá störfum og víkur því í veigamiklum atriðum frá lögmætri samþykkt Alþingis án þess að leita samþykkis þess,“ sagði Árni Þór.

„Hvað sem líður afstöðu þingmanna til aðildar að ESB, verður að virða leikreglur þingræðisins. Ég tel að það megi færa fyrir því sterk rök að hæstvirtur utanríkisráðherra er á þunnum ís hvað þetta áhrærir, svo ekki sé fastar að orði kveðið,“ sagði Árni Þór í umræðum um Evrópumál á Alþingi í dag.

Árni Þór segir að það sé einlæg sannfæring sín að umræðan um aðild Íslands að ESB verði ekki leidd til lykta nema með þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Í því sambandi er það skoðun mín, að þá skipti engu hvort gert verði hlé á viðræðunum nú eða aðildarumsókn dregin til baka. Málinu verður ekki ýtt út af umræðuborði þjóðarinnar með slíkum hætti. Það verður áfram deilumál og um það þrefað og tekist á uns þjóðin hefur fengið að ráða málinu til lykta,“ sagði Árni Þór og bætti við að það sé affærasælast að ljúka aðildarviðræðum og bera niðurstöðuna undir þjóðina sem fyrst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert