Skammt frá áningar- og útsýnissvæði rétt fyrir utan þjóðgarðinn á Þingvöllum blasir við fjöldi varða sem ferðamenn hafa reist á síðastliðnum árum.
Nýtilkomnar vörður af þessu tagi, minnisvarðar um viðkomu ferðalanga á ókunnum slóðum, er að finna víða um land en mörgum þykja þær til lítillar prýði, auk þess sem gerð þeirra getur valdið náttúrspjöllum og ógnað öryggi fólks sem treystir á vörður sem leiðarvísa á ferðum sínum.
„Það sem ég held að megi varast í þessu er að ef menn sjá þessar vörður og þær fá að standa, þá haldi menn að þetta sé einhver íslenskur siður og megi gera hvar sem er,“ segir Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, í Morgunblaðinu í dag. Hann segist sjálfur nota vörður til viðmiðunar í óbyggðum og að vörður sem hlaðnar séu til gamans geti beinlínis verið hættulegar.