Þykir ekki nógu „töff“ að hjóla

Áhugi landsmanna á hjólreiðum hefur farið vaxandi seinustu ár.
Áhugi landsmanna á hjólreiðum hefur farið vaxandi seinustu ár. Styrmir Kári

Kannanir sýna að framhaldsskólanemar noti síður hjól sem ferðamáta en það gæti ef til vill verið vegna þess að það þykir ekki nógu „töff“ að hjóla. Í næstu viku fer að stað nýtt átak sem nefnist Hjólum í skólann þar sem markmiðið er að hvetja framhaldsskólanema til þess að nýta virkan ferðamáta. Nemendur og starfsmenn framhaldsskóla munu keppa sín á milli að nýta virkan ferðamáta sem oftast í og úr skóla.

Mýtur um hjólreiðar fyrirferðarmiklar

„Ungt fólk á aldrinum 16 til 20 ára hjólar lítið sem ekki neitt og okkur langar að breyta því,“ segir Kristín Lilja Friðriksdóttir, verkefnisstjóri almenningaíþróttasviðs hjá Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands.

Kristín kveðst ekki vita af hverju framhaldsskólanemar velji síður hjól sem ferðamáta. „Ef maður ætti að giska á eitthvað þá gæti það verið að þeim þyki það ekki nógu „töff“ og svo eru alltaf fyrirferðarmiklar mýturnar um að hjólreiðar taki of langan tíma eða séu of erfiðar. Þá setur fólk einnig fyrir sig ýmis atriði eins og til dæmis skort á sturtuaðstöðu en þegar fólk lætur reyna á hlutina þá kemur í ljós að það er lítið mál að hjóla. Maður þarf bara að skipuleggja sig.“

Þarfnast breytts hugarfars

„Vonandi mun hugarfarið og menningin breytast með tímanum þannig að hjólreiðar verði algengari ferðamáti framhaldsskólanema. Átakið Hjólum í vinnuna hefur verið haldið síðustu ellefu ár og gefið góða raun og það var því eðlilegt framhald að beina næst sjónum að framhaldsskólanemum,“ segir Kristín en hún finnur fyrir miklum áhuga. „Síðast þegar ég athugaði þá voru tíu skólar búnir að skrá sig til leiks sem er bara mjög gott. Svo er stöðugt að bætast í hópinn,“ segir Kristín.

Hjólum í skólann fer fram í fyrsta skipti dagana 16.-20. september 2013 í tengslum við Evrópsku samgönguvikuna, en stefnt er að því að keppnin verði árviss viðburður á samgönguviku. Þetta er samstarfsverkefni Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, Hjólafærni á Íslandi, Embætti landlæknis, Reykjavíkurborgar, Samgöngustofu og Sambands íslenskra framhaldsskólanema. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu átaksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert