Lögreglunni á Suðurnesjum bárust í vikunni tvær tilkynningar um að hundar hefðu bitið börn. Bæði atvikin áttu sér stað í Grindavík, hið fyrra um fjögurleytið síðastliðinn mánudag. Þá var tíu ára stúlka á leið á æfingu þegar hún hitti dreng með tvo hunda á Víkurbraut, annan dökkan og hinn hvítan. Annar hundurinn beit hana í lærið svo hún hlaut áverka af.
Hitt atvikið átti sér stað við grunnskólann í Grindavík í fyrradag. Þar var önnur stúlka að leik ásamt fleiri börnum þegar svartur hundur með keðju um hálsinn kom aðvífandi. Hann glefsaði fyrst í vinkonu stúlkunnar en beit hana svo sjálfa til blóðs í lærið.
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar þessi mál, sem litin eru mjög alvarlegum augum. Þeir sem kynnu að hafa orðið vitni að atvikinu á Víkurbrautinni eða hafa vitneskju um eigendur umræddra hunda eru beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 420-1800.