Hundur bjargaði mannslífum

Allt til­tækt slökkvilið var kallað út að fjöl­býl­is­húsi í Kríu­ási í Hafnar­f­irði á þriðja tím­an­um í nótt en þar logaði tölu­verður eld­ur í íbúð á jarðhæð. Þrír íbú­ar og hund­ur voru í íbúðinni þegar eld­ur kviknaði. Eng­inn reyk­skynj­ari var í íbúðinni en íbú­arn­ir vöknuðu þegar hund­ur­inn fór að gelta. Fólkið komst með naum­ind­um út.

Til­kynn­ing barst Slökkviliðið höfuðborg­ar­svæðis­ins kl. 02:07 í nótt og voru all­ar stöðvar send­ar á vett­vang. Varðstjóri seg­ir í sam­tali við mbl.is að íbú­arn­ir, einn karl­maður og tvær kon­ur, hafi sloppið með naum­ind­um út úr íbúðinni. Það fór síðan á slysa­deild vegna gruns um reyk­eitrun.

Varðstjór­inn seg­ir það hafa vakið at­hygli slökkviliðsins að eng­inn reyk­skynj­ari hafi verið inni í íbúðinni, en sem bet­ur fer náði hund­ur­inn að vekja íbú­ana og bjarga þeim.

Tveir reykkafar­ar voru send­ir inn í íbúðina og kom í ljós að eld­ur logaði inni á baðher­bergi. Þeir náðu að ráða niður­lög­um elds­ins fljótt, en íbúðin er hins veg­ar mikið skemmd. Til­drög­in eru óljós á þess­ari stundu og er rann­sókn máls­ins í hönd­um lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu. 

Mik­ill reyk­ur myndaðist sömu­leiðis og voru nær­liggj­andi íbúðir rýmd­ar á meðan slökkviliðið at­hafnaði sig á vett­vangi. Aðgerðir slökkviliðsins stóðu yfir í tæpa klukku­stund. Aðrir íbú­ar gátu svo snúið aft­ur í sín­ar íbúðir, en sem fyrr seg­ir er íbúðin sem eld­ur­inn kviknaði í mikið skemmd og varð heim­il­is­fólkið að sofa ann­ars staðar í nótt.

Varðstjór­inn tek­ur fram að mik­il mildi að ekki hafi farið verr og það sé al­gjör­lega hund­in­um að þakka að fólkið vaknaði.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert