Lýsa furðu á vinnubrögðum utanríkisráðherra

mbl.is

Samtökin Já Ísland lýsa furðu á vinnubrögðum utanríkisráðherra þegar hann ákvað að leysa upp samninganefndina við Evrópusambandið. „Hann vanvirðir bæði vilja Alþingis og gefin fyrirheit um að þjóðin ákveði framhaldið,“ segir í fréttatilkynningu.

Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins sendi í vikunni öllum sem sæti eiga í samninganefnd við Evrópusambandið bréf þar sem nefndin er leyst frá störfum.

Samtökin Já Ísland skora á Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á utanríkisráðherra. 

„Samtökin Já Ísland telja að ráðherrann lítilsvirði þingsályktun Alþingis um aðildarviðræðurnar frá því 2009 með því að bera ekki undir þingið þennan viðsnúning í þessa stóra hagsmunamáli.

Allar kannanir sýna að meirihluti þjóðarinnar vill ljúka viðræðum og enn fleiri vilja taka ákvörðun um framhald aðildarviðræðna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þann þjóðarvilja hunsar ráðherra.

Samtökin Já Ísland skora á háttvirt Alþingi að grípa fram fyrir hendurnar á utanríkisráðherra í þessum efnum og taka þegar í stað ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Hún verði sem fyrst.

Tímann fram að atkvæðagreiðslunni á að nýta til þess að gera víðtæka úttekt á hagsmunum Íslands í tengslum við aðild eða ekki aðild að ESB. Um gerð þeirrar úttektar þarf að ríkja sátt og sem flestir hagsmunaaðilar að koma að henni. Á grundvelli slíkrar úttektar getur þjóðin ákveðið framhaldið,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka