Nýtt mynstur fólksflutninga

Catherine de Wenden leggur mikla áherslu á að ríki tileinki …
Catherine de Wenden leggur mikla áherslu á að ríki tileinki sér hnattræna stjórnunarhætti til þess að draga úr því óöryggi og hættum sem fólksflutningar geta haft í för með sér. Rósa Braga

Catherine de Wenden segir það mikilvægt að lágmarka þau neikvæðu áhrif sem fylgt geta auknum fólksflutningum. Ríki heims verða að taka höndum saman og vinna að mótun hnattrænna stjórnunarhátta. Þetta kom fram í hádegisfyrirlestri hennar á vegum alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í dag.

Heildaráhrifin alltaf jákvæð

De Wenden segir að nú horfi að mörgu leyti öðru vísi við en var hér áður fyrr. „Upp er komið nýtt mynstur í fólksflutningum sem ráðist meðal annars af aukinni tíðni ferðalaga og mikla aukningu í ferðaþjónustu um heim allan. Ferðalög ýta undir dvöl fólks til langframa og skýrt dæmi um það er til dæmis mikill fjöldi Evrópubúa sem vilja flytja til suðlægari landa á efri árum. Þá skapar hærri aldurstíðni í Evrópu og í Japan mikla þörf fyrir fólk sem reiðubúið er að taka að sér störf við umönnun og því munu fólksflutningar til þessara landa aukast í framtíðinni.“ De Wenden bendir á að rannsóknir hafi sýnt að meiri ávinningur sé af því fyrir hagkerfi ríkja að taka á móti innflytjendum en sem nemur hugsanlegum kostnaði fyrir félagslega kerfið. Heildaráhrifin séu alltaf jákvæð. 

Munur á norðri og suðri

Þá er mikill munur sagður vera á mynstri fólksflutninga á milli norðurs og suðurs. Þessi svæði taka misjafnlega á móti fólki. Komi maður frá suðri og vill fara til norðurs þá er tiltölulega auðvelt að fara frá viðkomandi landi í suðri en erfitt að komast löglega inn í norðlæg lönd. Sé maður aftur á móti frá norðlægu landi þá er auðvelt að ferðast innan þess svæðis auk þess sem það er auðvelt fyrir hann að fara suður. 

Staðan á suðlægum slóðum er að sama skapi önnur. Þar er bæði auðvelt fyrir fólk að fara og koma. Fátækt fólk í suðlægum löndum ferðast því frekar til annarra suðlægra landa en Afríka er til dæmis álfa þar sem miklir fólksflutningar eru á milli Afríkulandanna.  

Lönd fara á mis við uppbyggingu

De Wenden bendir einnig á að aukin tíðni fólksflutninga verður ekki endilega til þess að land byggist upp heldur verður til ákveðinn spírall hæðis. Hún tekur Filipseyjar sem dæmi en heimamenn þar reiða sig mjög á brottflutta. „Konur í umönnunarstörfum erlendis senda peninga heim til þess að mennta börn sín og stuðla að betra lífi þeirra. Með þessu sjá börnin framtíð sína liggja í þeim möguleikum sem felast í því að flytja úr landi. Efnahagur ríkja reiðir hins vegar á að fólk snúi aftur til síns upprunalands og uppbyggingin heimafyrir lætur því á sér standa.“

Evrópulönd hikandi í garð breytinga

Þá segir de Wenden að búist sé við mikilli aukningu í hópi þeirra sem verða að flýja lönd sín vegna loftslagsbreytinga. Nú er talið að 38 milljón manns séu flóttamenn vegna loftlagsbreytinga en undir lok aldarinnar verði talan orðin nær 150 milljónum. Þetta kalli á breyttar reglur ríkja varðandi fólksflutninga.

De Wenden segir viðhorf ríkja vera mjög misjafnt í garð fólksflutninga. Evrópulönd séu til að mynda mjög hikandi í garð þess að leita nýrra leiða í þessum málum. Suðlæg lönd séu það hins vegar ekki. Því til stuðnings bendir hún á að 47 ríki hafi skrifað undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi farandverkafólks og öll eru það ríki úr suðrinu. 

De Wenden er rannsóknarprófessor og stjórnandi rannsóknarstofnunar í alþjóðasamskiptum við Sciences Po háskólann og í La Sapienza-háskólanum í Róm og hafa rannsóknir hennar beinst að fólksflutningum. Catherine de Wenden hefur einnig starfað sem ráðgjafi fyrir ýmsar alþjóðlegar stofnanir og er höfundur fjölmargra fræðibóka, þar á meðal Atlas mondial des migrations sem kom út árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert