Reynir Ingibjartsson stjórnarmaður í Hraunavinum segir að Íslenskir aðalverktakar hafi þegar unnið óbætanleg skemmdarverk á ósnortnu Gálgahrauni þegar framkvæmdir hófust í sjálfu hrauninu í dag. Velunnarar Gálgahrauns hafa boðað til fánagöngu á sunnudag og verður fánum komið fyrir í fyrirhuguðu vegstæði.
Hann segir að framkvæmdir séu farnar í gang þrátt fyrir kæru fernra umhverfisverndarsamtaka um að verkútboðið sé ólöglegt og kæru sömu aðila til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna frávísunar sýslumanns á lögbannskröfu þeirra.
„Grafan sem hóf verkið hefur þegar unnið óbætanleg skemmdarverk á ósnortnu hrauninu, Þarna hefur einkar falleg hraunbrún verið tætt í sundur, jarðvegshaugur kominn yfir einn fyrsta matjurtagarð á Íslandi, gömul þjóðleið með hraunbrúninni rofin, stórspillt umhverfi Garðastekks sem er friðlýstur og sömuleiðis nálægð ævafornrar fjárborgar, kannski þúsund ára gömul. Hið áður vinalega umhverfi er gjörbreytt,“ segir Reynir í bréfi til fjölmiðla.
Fánagangan hefst klukkan 14 á sunnudag og verður safnast saman við innkeyrsluna í Prýðishverfið, norðan núverandi Álftanesvegar. Fólk er hvatt til að taka með sér íslenska fánann.