Það heldur aftur af fjárfestingu í atvinnulífinu að mörg fyrirtæki eru of skuldsett til að geta nýtt sér tækifæri á markaði og þurfa jafnvel að fara í enn frekari afskriftir í vetur.
Þetta er mat tveggja sérfræðinga hjá Landsbankanum annars vegar og Íslandsbanka hins vegar en báðir vísa til þess að spár um hagvöxt eftir efnahagshrunið haustið 2008 hafi ekki gengið eftir. Mörg fyrirtæki hafi því vaxið hægar en spáð var, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Orri Hauksson, formaður Samtaka iðnaðarins (SI), er ekki sannfærður um að grípa þurfi til frekari almennra afskrifta hjá skuldsettum fyrirtækjum, til að þau haldi velli. Hitt sé ljóst að áhrif skulda á fjárfestingu, sem er nú í sögulegu lágmarki í hagkerfinu, séu verulega vanmetin. Innan SI eru 1.400 íslensk fyrirtæki. Könnun frá 2011 hafi sýnt að skuldsetning íslenskra fyrirtækja væri að jafnaði fjórfaldur hagnaður fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA), borið saman við tvöfalt það hlutfall annars staðar í Evrópu.