Stefnir í skammtímasamninga

Mikil óvissa er um framgang kjaraviðræðna á almenna vinnumarkaðnum.
Mikil óvissa er um framgang kjaraviðræðna á almenna vinnumarkaðnum. Ómar Óskarsson

Sigurður Bessason, formaður Eflingar, segir allt stefna í skammtímasamninga í komandi kjaraviðræðum.  Hann hefur verulegar áhyggjur af því að til standi að einfalda þrepaskattkerfið og að það leiði til aukinnar skattheimtu á þá sem lægri laun hafa.

„Okkar tillögur eru að stefna að skammtímasamningum og erum við þá að miða við 6 til 8 mánaða samninga svo að hægt sé að nýta tímann til þess að undirbúa frekari vinnu varðandi kjarasamninga til lengri tíma litið. Mér heyrist almennt sá tónn vera innan Alþýðusambandsins að menn horfi til styttri tíma,“ segir Sigurður.

„Vandinn er sá að við höfum mjög litlar upplýsingar um það hvernig við eigum að móta okkar stefnu. Það er mikið rætt um það að kjarasamningar eigi að vera hófstilltir, hins vegar eru engar upplýsingar um það á hvaða forsendum það eigi að gerast. Við vitum ekkert um hver áform ríkisstjórnarinnar eru í efnahagsmálum en það er ljóst að ríkisstjórnin glímir við töluverðan fjárlagahalla. Ríkið hefur orðið af tekjum með niðurlagningu á sköttum eins og til dæmis auðlegðarskattinum, skatti á útgerðina og á ferðaþjónustuna og það þarf að ákveða hvernig skal loka því gati.“ 

Þá hefur Sigurður verulegar áhyggjur af því að til standi að einfalda þrepaskattakerfið. „Við höfum heyrt áform um að það standi til að einfalda þrepaskattakerfið og við höfum verulegar áhyggjur af því. Ef það verður gert óttumst við að það muni leiða til aukinnar skattheimtu á þá sem lægri laun hafa. Það er okkar reynsla.“

„Við þurfum einfaldlega bíða eftir því hvað kemur út úr fjárlagafrumvarpinu áður en við tökum næstu skref um það hvernig við byggjum okkar kröfugerð. Það er hins vegar ljóst að við gerum kröfu í samningi til lengri tíma um það að menn sameinist um það verkefni að skapa stöðugleika, ekki bara aðilar vinnumarkaðarins heldur líka ríki og sveitarfélög. En umræðan undanfarið hefur litast af því að hér séu bara gerðar kröfur um nógu litlar launahækkanir,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert