Fjöldi ferðamanna reynir á þolmörk

ferðamenn miðborg miðbær sumar
ferðamenn miðborg miðbær sumar mbl.is/Styrmir Kári

Rannsóknum á þolmörkum náttúrunnar á vinsælum ferðamannastöðum hefur verið ábótavant þótt Umhverfisstofnun geri reglulega stöðumat á fjölsóttum svæðum í umsjón stofnunarinnar. Árni Gunnarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustu, telur nauðsynlegt að aukið fé fáist í rannsóknir á ýmsum þáttum og áhrifum ferðaþjónustunnar.

„Ákaflega lítið fjármagn er sett í rannsóknir á ferðaþjónustu. Við náum varla einu prósenti af því opinbera fé sem fer í rannsóknir á meðan aðrar atvinnugreinar sitja á mun meiri peningum,“ segir Árni og bendir á að ferðaþjónustan skapi gífurlegar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið og því mikilvægt að verja fé í rannsóknir á atvinnugreininni og helstu áhrifum hennar.

Nálgumst huglæg þolmörk

Anna Dóra Sæþórsdóttir landfræðingur hefur stundað rannsóknir á huglægum þolmörkum ferðamannasvæða víða um land í fjölda ára. Hún telur það blasa við að með fjölgun ferðamanna um landið, bæði innlendra og erlendra, sé meira álag á helstu ferðamannastaði. „Vandamálið er að ekki hefur verið veitt fé til rannsókna allra þátta þolmarka. Sérstaklega vantar rannsóknir á þolmörkum náttúrunnar og vegna hinnar miklu fjölgunar ferðamanna undanfarin ár er æskilegt að rannsaka þolmörk Íslendinga,“ segir Anna Dóra, sem sjálf hefur rannsakað huglæga afstöðu ferðamanna víða um land.

„Í rannsóknum sem ég hef leitt og lúta að upplifun ferðamanna hefur komið í ljós að hátt í 40 prósent ferðamanna í Hrafntinnuskeri og þriðjungur í Landmannalaugum upplifa of marga ferðamenn í kringum sig.“ Rannsókn Önnu Dóru á Hrafntinnuskeri var unnin árið 2011 og rannsóknin á Landmannalaugum er frá 2009 en ferðamönnum hefur fjölgað töluvert síðan þá.

Anna vill þó ekki fullyrða hver þolmörkin séu eða hvort þeim sé þegar náð. „Þetta er engin ein töfratala sem hægt er að finna með einföldum hætti. Það sem þarf að gera er að vinna að stefnumótun og ákveða hvaða markhópa við eigum að höfða til og hvaða uppbygging er æskileg á hverjum stað.“

Umhverfisstofnun grípur inn í á þeim náttúruverndarsvæðum sem hún hefur umsjón með en hefur ekki eftirlit með ferðamannastöðum utan þess.

Spurningamerki

„Við stundum ekki eiginlegar rannsóknir á þolmörkum náttúrunnar á almennum ferðamannastöðum heldur fylgist stofnunin með því að ásýnd náttúruverndarsvæða sé í lagi og grípur inn í ef þörf er á,“ segir Ólafur Arnar Jónsson, sviðsstjóri náttúrusviðs Umhverfisstofnunar.

Hann telur mikilvægt að mótuð sé stefna um innviði svæða, s.s. lagningu stíga og hvert skuli beina ferðamönnum. Þá telur Ólafur ekki heppilegt að ferðamönnum sé beint inn á viðkvæm svæði. „Við setjum spurningarmerki við alla markaðssetningu sem miðar að því að fjölga ferðamönnum á viðkvæmum náttúrverndarsvæðum,“ segir Ólafur en hann vísar þá til nýrrar markaðssetningar Íslandsstofu um leyndarmál landsins.

Sveinn Birgir Björnsson, verkefnastjóri hjá Íslandsstofu, segir nýju markaðssetninguna miða að því að gefa minni svæðum tækifæri á að kynna sig. „Þetta er ákveðin nálgun okkar til ferðamanna sem gefur minni stöðum eins og bæjum og þorpum tækifæri á að kynna sig,“ segir Birgir og bendir á að öllum upplýsingum sem birtar eru sé stýrt af Íslandsstofu. „Engum verður beint inn á viðkvæm eða hættuleg svæði enda stýrum við þeim upplýsingum sem eru birtar.“

Útfæra náttúrupassann

Hugmynd um upptöku náttúrupassa, sem eins konar aðgöngumiða erlendra ferðamanna að landinu, er í vinnslu, samkvæmt upplýsingum úr umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en þar er verið að vinna að útfærslu gjaldtöku og hvernig standa eigi að standa að úthlutun þess fjár sem kæmi inn vegna náttúrupassans. Verði af upptöku á einhvers konar gjaldi, hvort sem það yrði innheimt með sérstökum náttúrupassa eða öðrum hætti, er mikilvægt að sögn ráðuneytisins að huga að uppbyggingu við vinsæla ferðamannastaði og finna leiðir til að dreifa álaginu um landið.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert