„Ekki er mikill bragur yfir fyrstu skrefum þingmanna Pírata. Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gaf þá yfirlýsingu á dögunum að hann muni ekki ávarpa þingmenn og ráðherra sem háttvirta og hæstvirta úr ræðustól þingsins. Þessi venjuhelgaða regla ætti ekki að þurfa að valda vandræðum eða verða til þess að trufla vana ræðumenn eða fólk sem vill nota ræðustól Alþingis til þess að koma á framfæri skoðunum sínum eða tefla fram rökum með og á móti í umræðum um mikilvæg þingmál.“
Þetta segir Sturla Böðvarsson, fyrrverandi forseti Alþingis, á Facebook-síðu sinni í dag í tilefni af þeirri yfirlýsingu Jóns Þórs Ólafssonar, þingmanns Pírata, á Alþingi fyrir helgi að hann ætlaði ekki að ávarpa ráðherra sem hæstvirta og þingmenn háttvirta heldur þess í stað segja herra, frú eða fröken. Sagðist hann ekki telja ráðherra og þingmenn eiga það skilið að vera kallaðir hæstvirtir eða háttvirtir.
„Það er leitt til þess að vita að bragur "götustráka" skuli vera dreginn inn í þingið. Vonandi tekst þingforseta að koma vitinu fyrir þá þingmenn sem telja sig þess umkomna að brjóta reglur sem þingið hefur sjálft sett og hefur verið virt þó þingmenn hafi stundum ruglast í þessari hefð. Fróðlegt verður að fylgjast með vinnubrögðum þessara þingmanna þegar til þess kemur að þeir þurfi að takast á við mikilvæg mál,“ segir Sturla ennfremur.