<span>Skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi hefur sagt starfi sínu lausu og gengið frá starfslokasamningi við Borgarbyggð. Ástæðan er niðurstaða skýrslu um skólann, svonefndrar Skólavogar, þar sem hann kom illa út á landsvísu í ákveðnum þáttum.</span>
<span><a href="http://www.skessuhorn.is/frettir/nr/179862/" target="_blank">Frá þessu er greint á vefsvæði Skessuhorns</a>. Þar segir að Kristján Gíslason skólastjóri hafi tilkynnt þetta </span>á fundi með starfsfólki skólans. „Þessi niðurstaða er fengin í góðu samráði við forsvarsmenn Borgarbyggðar. Ég kaus að fara þessa leið til að skapa frið um skólastarfið og treysta stoðir þess. Þá er því ekki að neita að kosningavetur er í nánd og viðkvæm mál af því tagi sem skólamál eru, er slæmt að hafa óleyst við slíkar aðstæður. Því er svo ekki að neita að umræðan öll í kjölfar Skólavogarinnar hefur lagst þungt á mig og því er þetta að mínu mati farsælasta niðurstaðan eftir talsverða yfirlegu,“ sagði Kristján í samtali við Skessuhorn.
<span>Skólavogin var í upphafi sett á laggirnar sem tilraunaverkefni af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við valin sveitarfélög árið 2007.</span><span> </span><span>Í Skólavogina er safnað þrennskonar upplýsingum: viðhorfum nemenda, foreldra og kennara gagnvart skólastarfinu, námsárangri nemenda og ýmsum lykiltölum er varða rekstur skólans svo sem rekstrarkostnað á hvern nemanda.</span><span> </span>