Það er ábyrgðarlaust hjá Íslendingum að standa hjá þegar auðlindir á norðurslóðum verða nýttar. Þetta er skoðun Heiðars Guðjónssonar fjárfestis en í næstu viku kemur út eftir hann bókin Norðurslóðasókn – Ísland og tækifærin. Heiðar er fullur bjartsýni en segir ekki sama hvernig haldið er á spöðunum.
Hann nefnir annað. „Fólk er í auknum mæli að flytja í borgir, heimurinn er með öðrum orðum að iðnvæðast meira og meira. Borgarskipulag krefst til lengri tíma litið minni orku en dreifðar byggðir. Borgum með meira en tíu milljónir íbúa fjölgar stöðugt. Í ár eru þær tuttugu og fimm en verða nær fjörutíu árið 2025. Aðeins ein borg af þeim fjórtán sem bætast við er á Vesturlöndum: Chicago. Hinar verða væntanlega Chengdu, Dongguan, Guangzhou, Hangzhou, Shenzhen, Tianjin og Wuhan í Kína, Kinshasa í Kongó, Lagos í Nígeríu, Jakarta í Indónesíu, Lahore í Pakistan og Chennai á Indlandi.
Með þessu eykst ásókn í hrávörur og þá er bara eitt svæði í heiminum eftir ókannað og eftir að nýta, það eru norðurslóðir. Menn geta haft skoðun á því hvort gott eða slæmt sé að nýta þær auðlindir en það sem við þurfum að átta okkur á er að í kringum okkur, utan okkar lögsögu, verða þær nýttar. Þá er spurningin þessi: Eigum við að taka þátt í þeirri nýtingu? Stöndum við hjá höfum við ekkert um málið að segja. Það er að mínu mati ábyrgðarlaust.“
– Hvers vegna?
„Vegna þess að Ísland var alltaf miðstöð þjónustu fyrir Norðurheimskautið. Á árunum 1000 til 1200 upplifði Ísland sitt blómaskeið. Því er oft haldið að okkur að Íslendingar hafi verið algjörir villimenn á þessum tíma. Það er öðru nær. Ísland náði miklum hæðum í hátísku í fatnaði, handritagerð, menningu og öðru. Það var vegna þess að Ísland var miðstöðin. Öll nýting á auðlindum og þjónusta við Norðurheimsskautssvæðið fór í gegnum Ísland. Við getum auðveldlega endurheimt þessa stöðu, höfum við áhuga á því.“
– Hvernig eigum við að snúa okkur í þeim efnum?
„Byrjum á því að átta okkur á því hvað er að gerast í kringum okkur. Þegar maður gerir áætlun er alltaf skoðað fyrst hvaða þættir eru fyrir utan þitt áhrifasvið. Er hnattræn hlýnun í gangi? Er veðrið aftur að verða svipað og þegar víkingarnir námu hérna land, þegar veðurfar var hlýrra? Verður fólksfjölgun í heiminum virkilega eins mikil og spáð er? Verður sókn í hrávörur eins mikil og útlit er fyrir? Er það eitthvað sem mun koma inn á okkar borð og ef svo er viljum við taka þátt í því? Að mínum dómi þurfum við að horfa fram veginn. Við getum ekki búið til líf hér með því að liggja í fortíðinni. Við verðum að búa okkur undir framtíðina og taka þátt í þeim verkefnum sem okkur hugnast þar.“