„Eftir útskrift úr menntaskóla fór ég í Asíuferð og þegar ég kom heim hafði ég opinn huga fyrir öllu,“ segir Jökull Brynjarsson, 21 árs Hafnfirðingur og sjötti karlmaðurinn sem nemur við Hússtjórnarskólann í Reykjavík síðan kennsla hófst í skólanum árið 1942. Hann segir áhugann hafa kviknað þegar frænkur hans sögðu honum frá skólanum og ákvað hann því að slá til og sækja um skólavist.
„Ég sótti bæði um í háskóla og í Hússtjórnarskólanum,“ segir Jökull. Svo fór að umsókn hans var samþykkt í báðum skólunum og var því úr vöndu að ráða. „Ég ákvað að þiggja plássið í Hússtjórnarskólanum og skella mér í það ævintýri, ég get alltaf farið í háskóla.“
Nú eru liðnar þrjár vikur af haustönninni og hefur námið að sögn Jökuls gengið vel. „Ég kunni lítið sem ekkert að elda áður en ég fór í skólann en nú kann ég að elda fullt af heimilisréttum,“ segir hann. Þá er Jökull einnig búinn að reyna sig í handavinnunni þar sem hann hefur prjónað ullarsokka og lopahúfu og er ullarpeysa næst á dagskrá.
Jökull viðurkennir að prjónaskapurinn hafi gengið dálítið erfiðlega í byrjun þar sem hann hafði aldrei prjónað áður. „Það er erfitt að prjóna ullarsokka en þegar ég var kominn í gegnum þá var þetta lítið mál,“ segir Jökull. „Ég er kannski ekki hraðasti prjónarinn en geri þetta hægt og örugglega.“
Jökull segir að kennararnir hafi tekið sér vel og séu afar sveigjanlegir hvað varðar verkefnin. Venjulega sauma stelpurnar í skólanum kjól en Jökli stendur til boða að sauma skyrtu eða buxur. „Þær eru mjög góðar við mig, kannski græði ég á því að vera eini strákurinn,“segir hann. Aðspurður segir Jökull að vinir hans hafi tekið vel í þessa óvæntu ákvörðun hans. „Ég á svo yndislega vini, þeim finnst þetta bara skemmtilegt og fyndið.“
Jökull dvelur á heimavist skólans og segir að þar sé alltaf gleði og góð stemning. „Maður þarf að þvo þvottinn sinn sjálfur og elda,“ segir hann. „Það er þó ekki erfitt, það er alltaf fullur ísskápur af mat og nóg af félagsskap.“ Nemendurnir gera sér ýmislegt til skemmtunar, kíkja meðal annars í leikhús og þá ákváðu þau einnig að hafa svokölluð salsakvöld á fimmtudögum.
„Ég mæli með þessu fyrir alla,“ segir Jökull. „Sérstaklega ef fólk veit ekki hvað það vill gera næst, þá ætti það endilega að fara í Hússtjórnarskólann og læra svolítið.“
„Við sitjum aldrei auðum höndum hér í skólanum,“ segir Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík. Námið við skólann er ein önn og er pláss fyrir 24 nemendur hverju sinni. Ekki komast nærri því allir að sem nema vilja við skólann og myndast biðlistar fyrir hverja önn. Dagskrá nemendanna er þéttskipuð frá átta á morgnana til fimm á daginn. Á föstudögum lýkur kennslu um hádegi svo nemendur hafi kost á að sinna ýmsum erindum.
Hópnum er skipt í tvennt og leggur annar hópurinn áherslu á matreiðslu og vefnað fyrri hluta annar og hinn á handavinnu, ræstingu og vörufræði. Þá eru báðir hóparnir í prjóni og útsaum alla önnina. Um miðja önn skipta hóparnir og í lok annar eru allir nemendurnir tilbúnir til að reka heimili. Að sögn Margrétar er ekkert brottfall úr skólanum. „Það mæta allir af áhuga,“ segir hún.
Margrét segir að námið við skólann sé mikil vinna en nemendurnir setji það ekki fyrir sig. „Þau eru rosalega ánægð og glöð,“ segir hún. „Þeim þykir ekki leiðinlegt að hafa svona mikið að gera.“ Þá sé námið einnig góður undirbúningur fyrir frekara nám, því nemendurnir læri einnig að skipuleggja sig þar sem um mörg verkefni er að ræða á önninni.
Margrét hefur verið skólastýra skólans frá árinu 1998. „Tíminn líður svo hratt, það er svo gaman í vinnunni,“ segir hún og segist alltaf hlakka til að fara í vinnuna á hverjum morgni. Hún segir að Jökull sé fjórði karlmaðurinn í skólanum síðan hún hóf störf en þar á undan hafi aðeins verið tveir karlmenn við nám í skólanum síðan kennsla hófst árið 1942. Jökull er því sjötti karlkyns nemandinn í sögu skólans í Reykjavík. „Það er alltaf gaman að hafa karlmann í hópnum, það breytir umræðunni,“ segir hún.
Nemendurnir fara í gegnum öll grunnatriði í matargerð. Þá fara nemendurnir til að mynda í berjaferð og sulta í kjölfarið, taka slátur, læra að búa til laufabrauð og ýmsar smákökur og lagkökur fyrir jólin. Í handavinnunni sauma þau meðal annars barnabol, barnabuxur, sængurver, koddaver, skírnarkjól og barnakjól. Margrét segir að þekking nemendanna sé afar misjöfn þegar þau koma í skólann. „Sumir þekkja varla heklunál og hafa aldrei prjónað áður.“