„Finnst æðislegt að snerta dúninn“

Æðarfugli er gerð sérstök skil á sýningunni.
Æðarfugli er gerð sérstök skil á sýningunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Tilgangurinn með sýningunni er sérstaklega að kynna útlendinga fyrir æðarkollunni og kynna þá fyrir hinu nána sambandi sem er á milli mannfólksins og hennar á þessu svæði. Ferðamönnum gefst tækifæri á að snerta dúninn sem við erum með hérna og þeim finnst það æðislegt,“ segir Harpa Björk Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum. 

Sýningin er í húsi rétt við bæjarmörkin, nærri samkomuhúsinu á Reykhólum, og er hún helguð gjöfum náttúrunnar við Breiðafjörð og nýtingu þeirra allt fram á þennan dag.

Þar má sjá uppstoppaða fugla og sérstök umfjöllun er um æðarfuglinn sem gefið hefur verðmætan dún í gegnum aldirnar. Jafnframt eru breiðfirskum bátum gerð góð skil, en með hjálp þeirra hefur verið hægt að bera björg í bú. Hjá öllum dýrum og bátum má finna umfjöllun og tengingu þeirra við lifnaðarhætti fólks.

Netagerðarmaður að störfum

Á safninu má einnig sjá uppstoppaða seli, skarfa og örn svo dæmi sé nefnt. Eins er varpað á skjá gömlu myndefni sem varpar ljósið á lífið á Breiðafirði fyrr á tímum. „Fólk týnir sér í þessum myndum sem við fengum frá Barðstrendingafélaginu úr eyjunum hér í firðinum. Myndefnið er frá 1959 og er varpað á gamalt segl,“ segir Harpa.

Eins er reglulega netagerðarmaður á sýningunni og geta gestir fylgst með honum að störfum. Harpa nemur ferðamálastjórnunarfræði í Oxford og hefur hún starfað þar undanfarin sumur. Ein af hugmyndum hennar var að opna kaffihús í húsinu sem sýningin er í og var það gert í sumar. Gefst viðskiptavinum tækifæri á að snæða umkringdir bátum sem eru á sýningunni.

Bátur í smíðum

Einn báturinn á sýningunni var smíðaður á árunum 1916-17 að sögn Hörpu og samsíða honum er annar bátur sem verið er að smíða eftir sömu hönnun. Geta áhugasamir því séð hvernig verkinu miðar þegar þeir ganga um sýninguna. „Smíðin tekur um 200 klukkutíma og það er ekki á færi hvers sem er að gera þetta,“ segir Harpa.

Hún segir það hafa komið á óvart hvað erlendir ferðamenn sýna sýningunni mikinn áhuga. „Konurnar koma oft hérna með körlunum sínum og eru kannski í upphafi ekki áhugasamar um einhverja báta. En þær eiga það til að týna sér í fuglunum og ef ekki þá gleyma þær sér í gjafabúðinni,“ segir Harpa og hlær.

Harpa Björk Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri báta og hlunnindasýningarinnar. .
Harpa Björk Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri báta og hlunnindasýningarinnar. . Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Þessi tignarlegi örn er til sýnis.
Þessi tignarlegi örn er til sýnis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Á sýningunni má fylgjast með smíði báts.
Á sýningunni má fylgjast með smíði báts. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Báta og hlunnindasýning er staðsett í gamla samkomuhúsinu á Reykhólum.
Báta og hlunnindasýning er staðsett í gamla samkomuhúsinu á Reykhólum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert