Viðar Guðjónsson
Á bænum Seljanesi í Reykhólahreppi er sannkallaður fjársjóður, þar hefur Magnús Jónsson bóndi komið sér upp heljarinnar safni í samvinnu við fjóra syni sína.
Vélknúin farartæki eru fyrirferðarmest og þegar blaðamann bar að garði gangsetti einn sonanna, Stefán Hafþór Magnússon , Allis Chalmers-dráttarvél frá árinu 1947 og lét sig ekki muna um það að taka nokkra hringi um bæjarstæðið. Í heild eiga þeir 16 dráttarvélar og þar af 13 gangfærar.
Einnig eru í safninu tugir bíla og þeirra á meðal tvær rússneskar Volgur og er önnur þeirra gangfær. Einnig eiga þeir hina rússnesku Pobedu, gangfæran Landrover-jeppa frá árinu 1951 og Willys-jeppa frá árinu 1946 auk fleiri gersema. Þeir segjast ekki hafa hugmynd um hversu marga bíla þeir eiga.
Þá er í safninu fjöldi annarra gersema eins og framhlaðningur frá 19. öld, segulband frá fimmta áratugnum og klarínett frá KK sextett auk fjölmargra fleiri hluta.