Hraunavinir tóku sér stöðu klukkan sjö í morgun við gröfur ÍAV í Gálgahrauni og við hraunjaðarinn í vegstæði nýs Álftanesvegar með Ómar Ragnarsson í broddi fylkingar, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Þegar vélamenn mættu til vinnu kl. 7.30 var þeim greinilega nokkuð brugðið. Menn ræddu málin og að endingu gáfu vélamenn drengskaparheit sitt fyrir því að ekki yrði farið í hraunið í dag heldur grafinn „götuskápur“, þ.e. fjarlægður lífrænn jarðvegur úr vegstæðinu að hrauninu.
Sá þeirra sem gróf skurð í hraunið á föstudag hafði orð á því að honum fyndist þessi framkvæmd fáránleg og hann hygðist segja sig frá þessu verki. Hraunavinir þakka gröfumanninum fyrir stórmennsku hans og vonast til þess að aðrir starfsmenn ÍAV taki sér hann til fyrirmyndar.
Það er forkastanlegt að ÍAV skuli hefja framkvæmdir við veginn á meðan tekist er á um lögmæti hans fyrir dómstólum,“ segir í fréttatilkynningu.
Á vef Ferlir kemur fram að hraun þetta nefnist ýmist Gálgahraun eða því er skipt í tvö nöfn, Garðahraun og Gálgahraun þar sem hið fyrrnefnda er suðausturhluti þess en hið síðarnefnda er nyrðri og vestari hlutinn. Miðhluti þess að sunnanverðu hefur einnig verið nefndur Klettahraun og við Engidal einnig Engidalshraun.