Margir bílar skemmdir

Björgunarsveitarmenn unnu við erfiðar aðstæður í nótt. Þessi mynd var …
Björgunarsveitarmenn unnu við erfiðar aðstæður í nótt. Þessi mynd var tekin á Kili í nótt og sýna glöggt ástandið. mynd/Landsbjörg

Á annan tug bifreiða varð fyrir skemmdum af völdum grjót- og sandfoks á Skeiðarársandi og nágrenni í gær og í nótt. Dæmi eru um að rúður hafi farið úr bílum og ljóst að margir þeirra eru afar illa leiknir, m.a. bifreiðir sem tökulið frá Hollywood hefur verið með á leigu við gerð kvikmyndarinnar Interstellar í nágrenni Vatnajökuls.

Jóhann Hilmar Haraldsson, lögreglumaður á Höfn í Hornafirði, segir í samtali við mbl.is að veðrið á Suðausturlandi sé orðið mun skaplegra en var í gær og í nótt. Það er hins vegar enn talsvert rok. Ekki er vitað til þess að nokkurn hafi sakað af völdum veðurs.

Um 70 manns gistu í fjöldahjálparstöðinni í Hofgarði í Öræfum í nótt og nú á ellefta tímanum voru þeir síðustu að yfirgefa Hofgarð.

Aðspurður segir Jóhann að eitt ökutæki hafi verið skilið eftir á Skeiðarársandi en það er mjög illa farið eftir nóttina. Það verður sótt síðar í dag.

„Ég myndi segja að aðaltjónið hefði verið við Skeiðarársandinn; þar varð mesta tjónið á ökutækjum,“ segir Jóhann og bætir við að bílar hafi líka orðið fyrir tjóni við Vagnsstaði í Suðursveit. 

Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn urðu fyrir barðinu á veðurofsanum. „Það var aftakaveður og búið að útvarpa því að það var ekkert ferðaveður almennt á landinu,“ tekur Jóhann fram.

Erlendir ferðamenn ekki nægilega vel upplýstir

Spurður hvort erlendir ferðamenn séu almennt nægilega vakandi fyrir tilkynningum um slæmt veður, eða hvort að þeir fái slíkar tilkynningar yfirhöfuð, segir Jóhann ljóst að þetta sé atriði sem megi bæta - sérstaklega í ljósi þess að ferðamannatímabilið sé sífellt að lengjast. Hvað varði t.d. Suðausturland nái tímabilið nú fram í október.

„Við sjáum alveg þessa umferð; hún er hérna ennþá. Þegar þessar haustlægðir eru byrjaðar að koma finnst mér að þegar veðurlýsingar koma um alvarlegt veður megi þær koma í kjölfarið á ensku,“ segir Jóhann.

„Við erum að frétta af útlendingum sem eru að afla sér upplýsinga um hvenær helstu fréttatímar eru á Íslandi, um vefmiðla og annað,“ segir Jóhann og bætir við að ferðamenn kvarti gjarnan yfir því að þær upplýsingar sem eru í boði séu oftast á íslensku. 

Þá bætir hann því við að sumir ferðamenn haldi hreinlega að það sé í góðu lagi að vera á ferðinni í aftakaveðri. „Þeir eru ekki nægilega upplýstir um að það sé ekki ferðaveður og hinn almenni Íslendingur sé ekki á ferðinni í svona veðri,“ segir Jóhann.

Óþreyjufullt kvikmyndatökulið

Aðspurður segir Jóhann að svæðið sé nú orðið ferðafært og eru margir farnir að huga að sínum ökutækjum. Jóhann tekur hins vegar fram að enn sé nokkuð hvasst og er því fólk hvatt til að hafa varann á.

Spurður hvort óveðrið hafi sett strik í reikninginn hjá kvikmyndatökuliði frá Hollywood sem er að störfum í nágrenni Vatnajökuls segir Jóhann að menn hafi verið orðnir óþreyjufullir að komast aftur af stað snemma í morgun. Þeir voru t.d. á ferðinni í gær og hann segist vita til þess að eitthvað af bílum, sem tökuliðið var með á leigu, hafi orðið fyrir foktjóni.

Tilkynningar farnar að berast til tryggingafélaga

Mbl.is hafði samband við nokkur tryggingafélög í morgun til að spyrjast fyrir um hvort margar tilkynningar um tjón hefðu borist. Í svari sem barst frá VÍS segir að félaginu hafi í morgun borist nokkrar tilkynningar og fyrirspurnir um tjón á bílum vegna veðursins á sunnan- og suðaustanverðu landinu um helgina. Ætla megi að tjónstilkynningum fjölgi þegar líður á daginn og vikuna. Að svo stöddu sé því ekki unnt að segja til um endanlegan fjölda tjónstilfella vegna veðursins.

„Ef ökutæki er kaskótryggt fæst tjón á því bætt, að frádreginn eigin áhættu viðskiptavinar, þó ekki ef sandur, möl eða annar laus jarðvegur fýkur á hana. Með bílrúðutryggingu fæst rúða sem brotnar við þessar aðstæður bætt, að frádreginni eigin áhættu,“ segir ennfremur í svari sem barst frá VÍS.

Skilmálar VÍS.

Að sögn TM hafa nokkrar fyrirspurnir borist nú í morgun, þ.e. almennt vegna foktjóns um helgina. Fáar hafa hins vegar borist til Sjóvá, skv. upplýsingum þaðan.

Svipaðar reglur eru í gildi hjá TM, Sjóvá og VÍS, þ.e. varðandi kaskótryggingu bifreiða. Hér má sjá skilmála TM og hér má sjá upplýsingar um ökutækjatryggingar hjá Sjóvá.

Sandfok á Skeiðarársandi. Úr safni.
Sandfok á Skeiðarársandi. Úr safni. mbl.is/RAX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert