Nýjar brýr opnaðar á laugardag

mbl.is/Ómar

Nýjar brýr yfir Elliðaárósa verða formlega opnaðar á laugardag kl. 11 og er þessa dagana unnið hörðum höndum að því að gera allt tilbúið. Verið er að festa handrið á brýrnar og malbika stígana að þeim. Einnig er kapp lagt á að ganga frá lýsingu á stíg og yfir brýrnar, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs, og Hreinn Haraldsson vegamálastjóri munu opna nýju hjóla- og gönguleiðina formlega og er athöfnin einn viðburða Samgönguviku.

„Dagur og Hreinn undirrituðu fyrir rúmu ári tímamótasamning um átak í gerð hjóla- og göngustíga og fór sú undirritun fram á sama stað og nýi hjóla- og göngustígurinn liggur nú. „Markmiðið er að Reykjavík verði framúrskarandi hjólaborg“, sagði Dagur við það tækifæri,“ segir í tilkynningu.

Þá kemur fram, að arkitektarnir séu ánægðir með framkvæmdirnar og finnist mannvirkjagerðin hafa tekist mjög vel.

„Það er gaman að sjá hvað það er mikið samræmi milli hins byggða mannvirkis og upphaflegu tölvumyndanna. Helsti munurinn er að það var betra veður á tölvumyndunum,“ er haft eftir Hans-Olav Andersen, arkitekt og einum hönnuða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert