Aron og Emilía áfram vinsælust

Flestir drengir eru nefndir Aron í dag og er Þór …
Flestir drengir eru nefndir Aron í dag og er Þór algengast sem annað nafn. mbl.is/Ómar Óskarsson

Aron var vinsælasta eiginnafn nýfæddra drengja á árinu 2012 en Emilía vinsælasta stúlkunafnið. Bæði nöfnin voru einnig vinsælust á árinu 2011.

Þór var langvinsælasta annað eiginnafnið hjá drengjum, en þar á eftir Logi og Ingi, samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

Ósk var vinsælasta annað eiginnafnið hjá stúlkum ásamt Maríu, en þessi nöfn hafa vermt fyrsta og annað sætið undanfarin ár. Á eftir þeim kom stúlkunafnið Lilja sem þriðja vinsælasta síðara eiginnafn nýfæddra stúlkna.

Flestir heita þó Jón og Guðrún

Þegar litið er á allan mannfjöldann í ársbyrjun 2013 voru 10 vinsælustu einnefnin og fyrstu eiginnöfnin alveg þau sömu og árið 2008. Hjá körlum var Jón vinsælasta nafnið, þá Sigurður og svo Guðmundur. Tíu algengustu nöfnin hafa verið þau sömu frá 2008 nema hvað Kristján er nú í 7. sæti í stað Magnúsar sem færist niður um eitt sæti. Af kvenmannsnöfnum er Guðrún vinsælast, þá Anna og svo Kristín.

Flestir landsmenn bera fleiri en eitt nafn. Í ársbyrjun 2013 voru þrjár vinsælustu samsetningarnar hjá körlum Jón Þór, Gunnar Þór og Jón Ingi. Þetta voru einnig algengustu tvínefnin fimm árum fyrr. Hjá konum voru þrjár vinsælustu samsetningarnar Anna María, Anna Margrét og Anna Kristín. Þetta voru líka þrjú algengustu tvínefnin árið 2008. Kvenmannsnafnið Anna er hins vegar afar vinsælt sem fyrra nafn, en hún reyndist fyrra nafnið í sex af 10 algengustu tvínefnunum.

Rúmlega helmingur á afmæli frá apríl til september

Afmælisdagar á Íslandi dreifast ekki jafnt yfir árið. Algengara er að börn fæðist að sumri og á hausti en yfir vetrarmánuðina, frá október og fram í mars. Alls eru 51,6% allra afmælisdaganna frá apríl til september. Í upphafi árs 2013 gátu flestir átt von á því að halda upp á afmælisdaginn 27. ágúst, alls 1.002 einstaklingar. Fæstir áttu afmælisdag á hlaupársdag, 29. febrúar, eða 208 manns. Að öðru leyti eru jóladagur (699) og gamlársdagur (695) sjaldgæfir afmælisdagar ásamt öðrum hátíðisdögum um jólin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert