Sú breyting hefur verið gerð á ljósaskiltum Vegagerðarinnar að í stað þess að þar standi „Ófært“ þegar svo háttar til kemur enski textinn „Closed“. Þetta er gert til að freista þess að ná betur til erlendra ferðamanna.
Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
„Það er gömul saga og ný að erfitt hefur reynst að koma færðar- og veðurupplýsingum til erlendra ferðamanna. Um langt skeið hefur verið komið fyrir upplýsingum á stýri bílaleigubíla til að freista þess að benda óvönum ökumönnum á séríslenskar aðstæður. Það dugir þó ekki til þegar óveður skellur á. Í því ljósi hefur Vegagerðin ákveðið að í vetur verði erfiðum fjallvegum og/eða ferðamannavegum lokað með slá þegar þörf er á því vegna ófærðar. Sjá frétt frá í gær.
Í dag var svo ákveðið að breyta orðanotkuninni á ljósaskiltum sem finna má víða á vegakerfinu þannig að auðveldara verði að ná til ferðamanna og annarra erlendra ökumanna,“ segir í frétt á vef Vegagerðarinnar.