„Varðandi sérfræðingahóp, eða við gætum kallað hann líka ráðgjafanefnd, get ég svarað því þannig að við hyggjumst koma á fót til hliðar við þetta ferli sérstakri nefnd ráðgjafa ríkisstjórnarinnar í málinu. Og varðandi mögulegt hæfi eða vanhæfi manna til að taka sæti í slíkri nefnd verður því að sjálfsögðu gefinn gaumur. Enginn hefur enn verið formlega beðinn um að taka sæti í slíkri nefnd, henni hefur ekki enn verið komið á. Eitt af því sem er til skoðunar í því efni er hvort ástæða væri til að kalla til einhverja erlenda ráðgjafa.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag í sérstakri umræðu um afnám hafta og uppgjör gömlu bankanna. Málshefjandi var Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Vildi hann einkum vita hvernig ætlunin væri af hálfu nýrrar ríkisstjórnar að standa að vinnu í þeim efnum auk þess að minnast á gagnrýni sem komið hefði fram á boðaða sérfræðinganefndir vegna mögulegs vanhæfis einstakra fulltrúa í þeim.
Bjarni sagði hann og Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sammála um að í öllum meginatriðum væri skynsamlegt að byggja áfram á því stjórnskipulagi sem gilt hefði í þessum efnum. Eina breytingin væri í raun tilkoma áðurnefndrar ráðgjafanefndar sem yrði ríkisstjórninni eða ráðherranefndinni vegna skuldamála heimilanna til ráðgjafar. Þannig sæi hann til að mynda ekki fyrir sér breytingar á aðkomu eða hlutverki Seðlabankans eða Fjármálaeftirlitsins í því sambandi.
„Það er sagt að kröfuhafar hafi sýnt mikið frumkvæði og sýnt á sín spil. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að það finnst mér ekki vera tilfellið. Það hefur jú verið kallað eftir því að fá samtal en í grundvallaratriðum hefur ekkert breyst um það við hverja kröfuhafar eiga að tala. Þeir eiga að tala við þann sem framkvæmir gjaldeyrishöftin,“ sagði Bjarni ennfremur og vísaði þar til Seðlabanka Íslands.