Félag almennra lækna hefur miklar áhyggjur af því að tímabundin lausn stjórnenda Landspítala vegna óviðunandi mönnunar deildarlækna lyflækningasviðs sé að auka álag og vaktabyrði á nýútskrifaða lækna og læknanema. Þetta geti leitt til alvarlegra atvika sem varða öryggi sjúklinga og starfsmanna og hafi varanleg áhrif á lækna sem eru að taka sín fyrstu skref á ferlinum.
Auk þess sem þetta dragi verulega úr gæðum starfsnáms þeirra. Bregðast þarf nú þegar við ástandinu með bættum kjörum, starfsaðstæðum og auknum stuðningi. Mun það auka nýliðun almennra lækna á sviðinu, segir í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags almennra lækna (FAL) nýverið.
Félagið telur jákvætt að heilbrigðisráðherra og stjórnendur Landspítala hafi viðurkennt alvarlega stöðu lyflækningasviðs og tekið fyrstu skref í átt að bættu ástandi.
„Mönnun almennra lækna á sviðinu er sem stendur óviðunandi og afleiðing óboðlegs álags og bágrar starfsaðstöðu. Eykur þetta álag á annað starfsfólk spítalans, ásamt því að skerða þjónustu við sjúklinga og ógna öryggi þeirra. Félagið mun áfram fylgjast náið með gangi mála,“ segir í ályktun á aðalfundi FAL.
Félagar í FAL óska nýráðnum starfsmannastjóra Landspítala heilla í starfi og vona að takist að snúa við þeirri slæmu þróun sem endurspeglast í starfsmannakönnunum spítalans undanfarin ár.
„Fundurinn vill jafnframt benda á það að starfsánægja almennra lækna er samkvæmt þeim könnunum á aðgerðarstigi og þarf að huga sérstaklega að því við mótun starfsmannastefnu,“ segir enn fremur í ályktun frá aðalfundi FAL.
Fundurinn skorar á heilbrigðisráðherra að móta þegar í stað framtíðarstefnu Landspítala í húsnæðismálum. „Ljóst er að núverandi húsakostur stenst engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til sérhæfðs sjúkrahúss af þeirri stærðargráðu sem Landspítali er,“ segir jafnframt í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags almennra lækna nýverið.