Nokkrir þingmenn sem komu nýir inn á þing í vor hafa myndað óformlegan hóp sem ætlar að reyna að stuðla að málefnalegri umræðu í þingsal.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir frá þessu í grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir að Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokks, fari fyrir hópnum. Hópurinn ætli að hittast á næstu vikum til að vinna að bættri umræðuhefð á Alþingi. Markmið hópsins sé að sammælast um góð fordæmi að kurteislegri og málefnalegri umræðu í þingsal.
Frosti sagði í samtali við mbl.is að það væri ótímabært að segja frá starfi þessa hóps, enda væri það rétt að fara af stað. Það lægi ekki fyrir hvað kæmi út úr þessari hugmyndavinnu.
Samkvæmt könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir Alþingi treysta einungis 14% Alþingi. Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, hefur sett af stað vinnu til að bregðast við þessari niðurstöðu.