Reyndu að kúga 10 milljónir út úr Nóa Siríus

Fyrirtaka var í máli tveggja ungra manna í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sem eru ákærðir fyrir að hafa reynt að kúga fé út úr forstjóra Nóa Siríus.

Mennirnir, sem eru 23 og 24 ára, eru ákærðir fyrir að hafa í janúar í fyrra sett hótunarbréf inn um bréfalúguna hjá forstjóra Nóa Siríus. Bréfinu fylgdi tvö súkkulaðistykki sem framleidd voru af fyrirtækinu og búið var að sprauta í bremsuvökva.

Í bréfinu var því hótað að ef Nói Siríus myndi ekki greiða þeim 10 milljónir króna færu samskonar súkkulaðistykki, sem innihéldu vökva sem gæti reynst banvænn, í umferð í tugatali, auk annarra framleiðsluvara fyrirtækisins sem sprautuð yrðu með sama vökva.

Sama gilti ef haft yrði samband við lögreglu, en hótun þessi fól í sér að ef ekki yrði orðið við kröfum tvímenninganna yrði með framangreindum hætti unnið verulegt tjón á orðspori fyrirtækisins, með því að innkalla þyrfti vörur þess og með því að sala drægist saman.

Mennirnir fylgdu eftir hótun sinni í símtölum þar sem þrýst var á um greiðslu. Mennirnir voru handteknir af lögreglu eftir að hafa sótt pakkningu sem þeir töldu innihalda tíu milljónir króna í seðlum af hendi Nóa-Síríusi hf. og skilin hafði verið eftir, í samræmi við fyrirmæli þeirra, í bifreið á bílastæði við Hús verslunarinnar, Kringlunni 6, Reykjavík.

 Sá yngri er einnig ákærður fyrir að hafa haft fíkniefni í fórum sínum þegar hann var handtekinn.

Ákærðir fyrir tilraun til fjárkúgunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert