Nú þegar framkvæmdir við Álftanesveg færast sífellt nær Gálgahrauni virðast samskipti andstæðinga framkvæmdarinnar og verktaka á svæðinu fara versnandi en Hraunavinir saka gröfumann um að hafa ógnað sér með gröfunni á framkvæmdasvæðinu í morgun.
Reynir Ingibjartsson, formaður Hraunavina, segir nokkra félaga hafa fylgst með framkvæmdum á athafnasvæði Íslenskra aðalverktaka í morgun þegar gröfumaður hafi sveiflað gröfuskóflu yfir höfði þeirra og sagt þeim að hypja sig, annars yrði kallað á lögregluna. Hann á von á að Hraunavinir verði þó á svæðinu á næstu dögum enda sé skammt í að gröfurnar nái að hrauninu umdeilda.
Starfsmaður ÍAV segir að óviðkomandi sé bannaður aðgangur á skilgreindu vinnusvæði verktakanna og þeir sem hætti sér þar inn geri það á eigin ábyrgð. Hann tekur einnig fram að fullyrðing, sem sett var fram í fréttatilkynningu Hraunavina og birt í fjölmiðlum í gær þar sem gröfumaður ÍAV var sagður á móti framkvæmdinni og að hann hygðist segja sig frá henni, sé ekki á rökum reist og furðar sig á að hún skuli hafa ratað í fjölmiðla.