„Veldur óþolandi siðrofi í þjóðfélaginu“

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokks. mbl.is

„Ef hlutfall bótasvika er sambærilegt hérlendis við það sem gerist í Danmörku má ætla að þau geti numið 2 til 3,5 milljörðum króna á ársgrundvelli. Allt að þremur og hálfum milljarði. Samkvæmt því eru þær 100 milljónir sem eftirlitsnefnd Tryggingastofnunar náði til baka árið 2011 aðeins lítill hluti þeirra óréttmætu greiðslna sem runnu út úr almannatryggingakerfinu það ár.“

Þetta sagði Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Vísaði hann þar til skýrslu Ríkisendurskoðunar um störf sérstakrar eftirlitsnefndar innan Tryggingastofnunar sem sett var á laggirnar árið 2005 en þar hefðu starfað 3-4 starfsmenn. Hún hefði á árinu 2011 rannsakað 531 mál og helmingur þeirra leitt til breytinga á greiðslum. Þá oftast lækkunar. Í skýrslunni væri ennfremur fjallað um danska rannsókn þess efnis að ætla mætti að 3-5% bótagreiðslna ríkissjóðs Danmerkur mætti rekja til bótasvika.

„Ríkisendurskoðun segir að það sé augljós ávinningur af eftirliti með bótagreiðslum og líka markvissu fyrirbyggjandi eftirliti. Afstaða Íslendinga til bótasvika er oft undarleg. Hér eru meintir skattsvikarar hundeltir á meðan lítið er gert í málum þeirra sem svíkja bætur úr kerfinu. Þannig eru bótasvik sjaldan kærð til lögreglu og greiðsluþegi hefur aldrei fengið dóm fyrir slíkt brot að ég best veit,“ sagði hann.

Fyrir vikið væri beinlínis hvati í kerfinu til þess að láta á slík brot reyna. „Þetta veldur siðrofi í þjóðfélaginu sem er óþolandi. Það er því full ástæða til að hvetja ráðherra til að taka þessi mál föstum tökum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert