Kynbundinn launamunur „óþolandi“

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég tel að það sé ekki mikill ágreiningur á milli flokka um markmiðin. Það er óþolandi að fólki sé mismunað á grundvelli kyns þegar unnin eru sambærileg störf með sambærilegri ábyrgð. Það er einfaldlega óþolandi,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í dag.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna út í kynbundinn launamun og komandi kjarasamninga. Hann sagði mikilvægt að hafa umgjörð samningana eins góða og hægt er og að kaupmáttarávinningur verði eins mikill og hægt verði að ná. En málið snú einnig að réttlæti á vinnumarkaði og nýjar kjarakannanir sýni að kynbundinn launamunur sé enn óásættanlegur.

Bjarni sagði það mikilvægt og göfugt verkefni að vinna að því að allir njóti sanngjarna kjara og sambærilegra launa fyrir sambærileg störf, þvert á kyn. Reynsla undanfarinna ára sýni hins vegar að hægara sé um að tala en komast í. Hann sagðist minnast hástemmdra yfirlýsinga síðustu ríkisstjórnar um málið en þrátt fyrir góðan vilja og mikinn hug til að vinna á vandanum hafi afskaplega lítið gerst. Um tíma hafi mælingar meira að segja sýnt að þróunin var í öfuga átt.

Hann sagði að ekki væri um áhlaupsverkefni að ræða en mikilvægt væri að draga vandann upp á yfirborðið með mælingum og kynna hvers eðlis hann er. Þannig skapist grundvöllur til að ráðast í aðgerðir. Það sé hins vegar gríðarlega flókið mál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert