Merktur rostungur hefur verið í ferðum milli Íslands og Færeyja undanfarna mánuði. Samkvæmt merkjum frá gervihnattasendi er hann nú í Reyðarfirði, eftir að hafa heimsótt Færeyjar.
Þetta er talið sama dýrið og skreið upp á Breiðamerkursand í síðasta mánuði og virtist þá nær dauða en lífi, að því er fram kemur í umfjöllun um flakk rostungsins í Morgunblaðinu í dag.
Ekkert varð af líknardrápi, sem ýmsir hugleiddu, og fljótlega eftir hvíldina við Jökulsárlónið virðist rostungurinn hafa hraðað sér til Færeyja.