Umferðarsáttmálinn kominn í umferð

Yngstu vegfarendurnir taka bensín á bílabraut Fjölskyldugarðsins, undir vökulu auga …
Yngstu vegfarendurnir taka bensín á bílabraut Fjölskyldugarðsins, undir vökulu auga Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra og Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Eftir nokkurra mánaða samvinnu fulltrúa almennings og lögreglu liggur nú fyrir sáttmáli um samskipti allra vegfarenda í umferðinni. Frumeintak sáttmálans var afhent forseta Íslands í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag og við sama tækifæri fengu skólabörn leiðsögn lögreglu við umferðarreglurnar í bílabraut garðsins.

Markmið umferðarsáttmálans er að móta í sameiningu jákvæða umferðarmenningu. Það var lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sem átti frumkvæði að verkefninu, m.a. í ljósi góðs árangurs sem náðst hefur af gagnkvæmum samskiptum lögreglu og almennings í gegnum Facebook, þar sem ljóst hefur orðið að allir hafa skoðun á umferðinni.

13 kurteisisreglur sem vert er að hafa í huga

Hugmyndin er sú að sáttmálinn sé nokkurs konar boðorð vegfarenda, einfaldar kurteisisreglur sem allir ættu að geta tileinkað sér til að stuðla að jákvæðri umferðarmenningu.

Í samstarfi við Umferðarstofu var í mars auglýst á facebook-síðu lögreglu eftir áhugasömum þátttakendum til að vinna að gerð sáttmálans og sýndu margir áhuga. Á endanum var settur saman 14 manna hópur karla og kvenna á öllum aldri. Í kjölfarið var einnig stofnaður sérstakur umræðuhópur á Facebook um umferðarmenninguna þar sem margir lögðu sitt til málanna.

Sáttmálinn hefur nú litið dagsins ljós og er hann í 13 einföldum liðum:

  1. Ég er aldrei undir áhrifum í umferðinni
  2. Ég gef stefnumerki í tæka tíð
  3. Ég virði hraðamörk
  4. Ég læt hvorki síma né annað trufla mig
  5. Ég fer ekki yfir á rauðu ljósi
  6. Ég held hæfilegri fjarlægð
  7. Ég þakka fyrir mig
  8. Ég nýti „tannhjólaaðferð“ þegar við á
  9. Ég held mig hægra megin
  10. Ég er sýnileg(ur)
  11. Ég legg löglega
  12. Ég tek mið af aðstæðum
  13. Ég sýni ábyrgð

Ólafur Ragnar Grímsson tók við sáttmálanum við hátíðlega athöfn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag. Af þessu tilefni var börnum af leikskólanum Sunnuási og úr 2. bekk í Langholtsskóla boðið í garðinn og fengu þau að aka um bílabrautina þar sem lögregla stýrði umferðinni og fór yfir umferðarreglurnar.

<a href="http://www.facebook.com/groups/umferd/?fref=ts">Facebook-síða umferðarsáttmálans</a>

Forseta Íslands var afhentur Umferðarsáttmálinn í dag.
Forseta Íslands var afhentur Umferðarsáttmálinn í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Stefán Eiríksson lögreglustjóri veitti fjórtánmenningarnir sem unnu að mótun umferðarsáttmálans …
Stefán Eiríksson lögreglustjóri veitti fjórtánmenningarnir sem unnu að mótun umferðarsáttmálans viðurkenningu fyrir vel unnin störf. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Hópurinn sem vann að umferðarsáttmálanum
Hópurinn sem vann að umferðarsáttmálanum mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Umferðarsáttmálinn var afhentur við hátíðlega athöfn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum …
Umferðarsáttmálinn var afhentur við hátíðlega athöfn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í dag. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Lögreglan sýndi krökkum tækin sín eftir athöfnina og vakti það …
Lögreglan sýndi krökkum tækin sín eftir athöfnina og vakti það mikla lukku. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert